Grófu upp lík barns og fleygðu út í vegkant

Baitul Mukaram þjóðarmoskan í Baitul, höfuðborg Bangladess.
Baitul Mukaram þjóðarmoskan í Baitul, höfuðborg Bangladess. AFP

Leiðtogar minnihlutahóps ahmadi-múslima í Bangladess hafa sakað „öfgamenn“ úr hópi ríkjandi trúarhóps múslima um að grafa upp líka þriggja daga gamallar stúlku, aðeins nokkrum tímum eftir að hún var jörðuð, og fleygja því út í vegkant. Hefur atvikið vakið hneykslan á samfélagsmiðlum.

Ahmadi-múslimar eru í miklum minnihluta meðal íbúa Bangladess, en aðeins hneigjast um 100.000 af 160 milljónum íbúa landsins til trúarinnar. Um 90% íbúa landsins tilheyrir öðrum trúarhópum múslima, flestir súnní, sem líta á ahmadi-múslima sem heiðingja þar sem ahmandi-múslimar skilgreina upphafsmann trúarhópsins sem spámann.

Stúlkubarnið var grafið í grafreit í Ghatura í austurhluta borgarinnar Brahmanbaria á fimmtudag, að því er AFP hefur eftir S.M. Selim, leiðtoga ahmadi-múslima á svæðinu. „Glæpur hennar var að fæðast inn í fjölskyldu ahmadi-múslima.“ Lögregla í umdæminu segir hins vegar að engar kvartanir hafi borist en haft er eftir ónefndum lögreglumanni að málið hafi verið leyst á „friðsaman hátt“. Líkið var síðar grafið í öðrum garði um tíu kílómetrum frá.

„Það er gegn sharia-lögum að leyfa heiðingja að vera grafinn í grafreit múslima,“ segir Munir Hossain, klerkur í borginni, í samtali við AFP. „Hinir guðhræddu þorpsbúar myndu aldrei leyfa slíkt ótalið.“

Á síðustu mánuðum hafa mótmæli harðlínumanna í Bangladess farið vaxandi en þeir krefjast þess að yfirvöld skilgreini ahmadi-múslima „ekki múslimar“. 

mbl.is