Hugur páfa í Istanbúl

Frans páfi er afar sorgmæddur yfir ákvörðun Tyrkja að breyta Ægisif (Aya Sofya) í mosku. Tekur hann þar undir með kristnum trúarleiðtogum um allan heim sem hafa gagnrýnt ákvörðunina harðlega. 

„Hugur minn er í Istanbúl. Ég er að hugsa um Aya Sofya. Ég er afar sorgmæddur,“ segir Frans páfi en þetta eru fyrstu viðbrögð Páfagarðs við ákvörðun tyrkneskra yfirvalda að kirkjan verði moska að nýju frá og með 24. júlí.

Hugmyndir um að breyta hinni fornfrægu dómkirkju heilagrar Sofíu, á norrænu máli Ægisif, í mosku eru ekki nýjar af nálinni. Er Tyrkir unnu Miklagarð (Istanbúl) á 15. öld var kirkjunni breytt í mosku en 1934 varð hún safn, Aya Sofya. 

Dagblað Páfagarðs, L'Osservatore Romano, birti í gær viðbrögð frá ýmsum ríkjum varðandi niðurstöðu stjórnlagadómstóls Tyrklands á föstudag um að heimilt væri að breyta safninu í mosku.

Lengi vel var kirkjan Ægisif stærsta kirkja heims. Keisari Rómaveldis, Konstantínus, lét byggja hana árið 325 og í 916 ár var hún notuð sem kirkja en sem moska í 481 ár eftir það. 

Ægisif er á heimsminjaskrá UNESCO en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur ítrekað sagt að byggingunni verði breytt í mosku og árið 2018 flutti hann vers úr Kóraninum í safninu.

mbl.is