Leita Madeleine í brunnum

Madeleine McCann hvarf 3. maí 2007.
Madeleine McCann hvarf 3. maí 2007. AFP

Portúgalska lögreglan leitaði á stöðum skammt frá þeim stað sem Þjóðverjinn Christian Brueckner dvaldi í húsbíl um skeið árið 2007 í liðinni viku. Hann liggur undir grun um að hafa komið að hvarfi Madeleine McCann sem hvarf úr íbúð fjölskyldunnar í Algarve-héraði í byrjun maí 2007. Meðal annars leitaði lögreglan með aðstoð kafara í brunnum á svæðinu að því er segir í frétt Guardian.

Á vef Guardian er meðal annars vísað í frétt Mirror um að brunnar sem ekki eru lengur í notkun hafi verið kannaðir klukkutímum saman á fimmtudag. Brunnarnir eru í Vila do Bispo, sem er í um 16 km fjarlægð frá hótelíbúðinni í Praia da Luz þar sem Madeleine hvarf 3. maí 2007. Dýpsti brunnurinn er um 13 metra djúpur.

Christian Brueckner.
Christian Brueckner. AFP

Foreldrar Madeleine, Kate og Gerry McCann, hafa ekki fengið neinar upplýsingar um hvers vegna lögreglan ákvað að leita í brunnunum.

Rannsókn á hvarfi Madeleine hófst að nýju í júní þegar þýsk yfirvöld greindu frá því að Christian Brueckner væri grunaður um aðild að hvarfinu. Fram hef­ur komið að Þjóðverj­inn, sem er 43 ára gam­all, hafi sagt öðrum manni þar sem þeir sátu á bar að hann hafi átt aðild að hvarfi Madeleine. Eins hafi hann sýnt fé­laga sín­um mynd­skeið af sér þar sem hann nauðgar 72 ára gam­alli konu í Al­gar­ve árið 2005.

Húsbíll Christian Brueckner.
Húsbíll Christian Brueckner. AFP

Í des­em­ber var hann dæmd­ur fyr­ir þá árás og fékk hann sjö ára fang­els­is­dóm sem hann hefur áfrýjað. Hann afplánar nú dóm fyrir fíkniefnaviðskipti en hef­ur áður verið dæmd­ur fyr­ir barn­aníð. Þýsk­ir sak­sókn­ar­ar telja að Madeleine sé lát­in og að sögn lög­reglu er hvarf henn­ar þar í landi rann­sakað sem morðrann­sókn.

Aft­ur á móti lít­ur breska lög­regl­an enn á málið sem manns­hvarf þar sem eng­ar ör­ugg­ar sann­an­ir hafa komið fram um hvort hún er á lífi eða lát­in.

Frá Praia da Luz.
Frá Praia da Luz. AFP

Sak­sókn­ari í Braunschweig, Hans Christian Wolters, seg­ir að Christian Brueckner sé kyn­ferðis­glæpa­maður sem hafi þegar verið dæmd­ur fyr­ir glæpi gegn litl­um stúlk­um og hann afpláni nú lang­an dóm. Wolters seg­ir að hann hafi dvalið reglu­lega í Al­gar­ve-héraði frá 1995 til 2007 og að mestu fram­fleytt sér með glæp­um, svo sem inn­brot­um á hót­el­um og íbúðum. Þýska lög­regl­an seg­ist ekki telja að morðið hafi verið skipu­lagt fyr­ir­fram.

Saksóknarinn sem stýrir rannsókninni, Hans Christian Wolters.
Saksóknarinn sem stýrir rannsókninni, Hans Christian Wolters. AFP

Samkvæmt Guardian sýna gögn fram á að Christian Brueckner var í Algarve á þessum tíma því hringt var í portúgalskt farsímanúmer hans um það bil klukkustund áður en Madeleine hvarf. Síminn var í Praia da Luz þegar símtalið barst og varði það í 30 mínútur.

Kate og Gerry McCann hafa neitað því að hafa fengið bréf frá Wolters, sem stýrir rannsókninni í Þýskalandi, um að sannanir séu fyrir því að Madeleine sé látin. Þetta kemur fram á vefnum Find Madeleine og segja þau að þetta hafi valdið fjölskyldu og vinum óþarfa vanlíðan. Wolters segir aftur á móti að bréfið hafi verið skrifað til þeirra en hefur ekki upplýst um hvað standi í bréfinu.

Wolter segir að saksóknaraembættið hafi óyggjandi sannir fyrir því, en ekki líkamsleifar því til sönnunar, að Madeleine hafi verið drepin af Christian Brueckner.

mbl.is