Stakk af með fjallaljón í farangrinum

Fjallaljón er ekki gæludýr.
Fjallaljón er ekki gæludýr. AFP

Pólska lögreglan leitar nú fyrrverandi hermanns sem flúði inn í skóg með fjallaljón þar sem hann neitar að afhenda ljónið í dýragarð. Maðurinn keypti fjallaljónið í Tékklandi fyrir sex árum og tók það með sér heim þar sem hann hefur haft það sem heimilisdýr. 

Um 200 lögreglumenn taka þátt í leitinni að hermanninum sem meðal annars starfaði í Afganistan. Hans hefur verið leitað í þrjá daga. 

„Þetta er ekki leikfangadýr. Þetta er eitt hættulegasta dýr heimsins og það getur ógnað lífi fólks,“ segir Ewa Zgrabczynska, sem stýrir Poznan-dýragarðinum í vesturhluta Póllands. A

Bannað er með lögum að halda hættuleg dýr í Póllandi og fór mál fjallaljónsins fyrir dóm þar sem manninum var gert að afhenda dýragarði það. Þegar starfsmenn dýragarðsins fóru á heimili mannsins á föstudag hótaði maðurinn þeim með hnífi og flúði síðan að heiman með fjallaljónið. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir svo um fjallaljón: Fjallaljón (Puma concolor), sem einnig kallast púma, er kattardýr af undirættinni Felinae (smákettir) og er eina tegundin innan Puma-ættkvíslarinnar. Þó fjallaljón teljist til smákatta eru þau tiltölulega stór, karldýrin eru á bilinu 36 til 120 kg að þyngd og kvendýrin 29 til 64 kg. Litur þeirra er nokkuð breytilegur, frá gulbrúnum yfir í grábrúnan.

Fjallaljón lifa í Norður- og Suður-Ameríku. Ekkert spendýr á meginlandi Ameríku hefur jafn mikla útbreiðslu og fjallaljón, eða frá Eldlandi syðst í Suður-Ameríku, allt norður til suðausturhluta Alaska í Norður-Ameríku. Fjallaljón hafa því aðlagast mjög ólíkum búsvæðum, svo sem hálfeyðimerkum, barrskógum, gresjum, kjarrlendi, staktrjáasléttum, regnskógum og fjalllendi.

Fjallaljón eru kjötætur eins og önnur kattardýr. Það er alltof löng upptalning að nefna öll þau dýr sem fjallaljón veiða sér til matar en í stuttu máli eru spendýr algengust á matseðli þeirra, allt frá smáum nagdýrum upp í elgi. Stöku sinnum éta þau fugla eða jafnvel snigla þegar hart er í ári. Greining á fæðu fjallaljóna á tilteknum stað í Kaliforníuríki leiddi í ljós að 54% af veiði þeirra eru múlhirtir (Odocoileus hemionus), virginíu-hjörtur (Odocoileus virginianus) var 28% af fæðunni, skógarkanínur (Sylviaticus spp.) voru 5,8%, asnahéri (Lepus californicus) 2% og nautgripir 1,5%.

Hefðbundnar veiðiaðferðir fjallaljóna byggjast á því að læðast að bráðinni, stökkva á hana og bíta í háls eða hnakka, annað hvort til að kæfa hana eða spenna hálsliðina í sundur. Eftir að hafa étið nægju sína af nýdrepinni bráðinni fer fjallaljónið með afganginn á afvikinn stað og felur hann í laufblöðum eða einhverju öðru sem hægt er að nota til að hylja bráðina.

Fjallaljón eiga sér ekki marga náttúrulega óvini. Stöku sinnum verða þau úlfum eða björnum að bráð, en þá er oftast um að ræða ung eða veik dýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert