Bílstjórinn var reiður og drukkinn

AFP

Rútubílstjórinn, sem ók rútu út í lón í síðustu viku með þeim afleiðingum að 21 lést, var bæði drukkinn og reiður. Fimm þeirra sem létust voru námsmenn á leið í inntökupróf í háskóla. Rútunni var ekið út í lón skammt frá borginni Anshun í Guizhou-héraði á þriðjudag. 

Kínverska lögreglan greindi frá því í tilkynningu í dag að bílstjórinn hafi verið ósáttur við þá stefnu sem líf hans hefði tekið og að rífa ætti húsið þar sem hann leigði íbúð. 

Að sögn lögreglu slösuðust einnig fimmtán námsmenn til viðbótar en í síðustu viku fóru fram inntökupróf í háskóla í Kína. 

AFP

Á þriðjudagsmorgun frétti bílstjórinn af fyrirhuguðum áætlunum yfirvalda um að rífa húsið og hafði samband við símaver stjórnvalda til að kvarta yfir ákvörðuninni þrátt fyrir að hafa skrifað undir samkomulag um niðurrifið í síðasta mánuði. Þá hafði hann samþykkt 72 þúsund júana, 1,4 milljónir króna, í miskabætur ef hann flytti út úr húsinu án kvartana. Hann hafði ekki sótt bæturnar þegar hann keyrði rútuna út í lónið. 

Að sögn lögreglu er hann grunaður um að hafa ekið rútunni vísvitandi út í lónið en við réttarmeinarannsókn kom í ljós að hann var undir áhrifum áfengis þegar hann beygði  skyndilega og þveraði fimm akreinar, ók í gegnum vegrið og út í lónið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert