Duda endurkjörinn forseti Póllands

Forseti Póllands, Andrzej Duda, var endurkjörinn forseti landsins í kosningum sem fram fóru í gær. Afar mjótt var á munum en samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn fékk Duda 51,2% atkvæða. Aldrei áður frá því stjórn kommúnista leið undir lok í Póllandi hefur forseti verið kjörinn með svo naumum meirihluta. Um var að ræða aðra umferð forsetakosninganna þar sem enginn einn frambjóðandi fékk hreinan meirihluta í fyrri umferðinni.

Duda var fyrst kjörinn forseti árið 2015 en hann er 48 ára gamall lögfræðingur og er frambjóðandi stjórnarflokksins íhaldsflokksins Laga og réttlætis (PiS). Mótframbjóðandi hans í seinni umferðinni var Evrópusinninn og borgarstjórinn í Varsjá, Jaroslaw Kaczynski, sem var í framboði fyrir Borgarabandalagið, (KO). 

Eitt helsta baráttumálið í kosningunum nú var ólík sýn frambjóðendanna á Evrópusambandinu en Pólland gekk í ESB 1. maí árið 2004. BO er flokkur Don­alds Tusk, fyrrverandi for­seta leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins, sem var áður for­sæt­is­ráðherra Pól­lands. Þrátt fyrir að hafa aldrei lýst yfir andstöðu við ESB hefur Duda lýst sambandinu sem ímynduðu samfélagi sem Pólland græði ekki mikið á.

Duda hefur aðeins einu sinni neitað að skrifa undir lög frá því hann tók við embætti árið 2015 og vakti ákvörðun hans mikla athygli. Árið 2017 synjaði hann af­greiðslu tveim­ur af þrem­ur frum­vörp­um um breyt­ing­ar á dóms­kerfi lands­ins. Duda sagði að hann væri sam­mála stjórn­völd­um um þörf­ina á end­ur­bót­um á dóms­kerf­inu en teldi þær um­bæt­ur sem lagðar væru fram í frum­varp­inu ekki vera í sam­ræmi við stjórn­ar­skrá lands­ins.

Þegar PiS komst fyrst til valda árið 2005 var gerður að vara dómsmálaráðherra og gegndi hann embættinu þangað til 2008 er hann gerðist aðstoðarmaður þáverandi forseta, Lech Kaczyński, tvíburabróður Jarosław Kaczyński, sem er forsætisráðherra Póllands og formaður PiS. 

Duda er guðrækinn kaþólikki og var afar náinn Lech Kaczyński en hann lést þegar flugvél forsetans fórst í Smolensk í Rússlandi 2010. Duda nýtur stuðnings Samstöðu, stéttarfélagsins sem batt enda á völd kommúnista í Póllandi árið 1989. 

Hann var kjörinn á þing árið 2011 og Evrópuþingið árið 2014. Duda er stuðningsmaður þess að herða þungunarrofslög en þau eru þegar ein hörðustu í Evrópu. Ekki er langt síðan hann líkti hugmyndafræði hinsegin fólks, LGBT, við kommúnisma.

Í forsetatíð Duda hefur eftirlaunaaldur verið lækkaður úr 67 árum í 65. Eins hefur verið komið á barnabótum. Duda hefur á alþjóðavettvangi stutt sterkari tengsl Póllands við Atlantshafsbandalagið. Frá því að hann tók við völdum 2015 hafa bæði Bandaríkin og NATO fjölgað í herliði sínu í Póllandi vegna aðgerða Rússa í nágrannaríkinu Úkraínu. 

Fjórum dögum fyrir fyrri umferð forsetakosninganna í júní heimsótti Duda forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og var þar fyrstu erlendi þjóðarleiðtoginn til að koma í Hvíta húsið frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Trump hefur ítrekað lýst Duda sem vini sínum í Póllandi. 

Andstæðingar Duda gagnrýna hann meðal annars fyrir aðild hans að því að draga úr valdi dómstóla, þar á meðal stjórnlagadómstólsins og annarra dómstóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert