„Engin réttarhöld“ ef Maxwell flýr

Ghislaine Maxwell ásamt Jeffrey Epstein, fyrrverandi kærasta sínum. Epstein lést …
Ghislaine Maxwell ásamt Jeffrey Epstein, fyrrverandi kærasta sínum. Epstein lést í fangelsi. AFP

Ríkissaksóknarar í New York hvöttu dómara til að hafna beiðni Ghislaine Maxwell, fyrr­ver­andi kær­ustu og sam­starfs­konu barnaníðingsins Jef­frey Ep­stein, um stofufangelsi. Saksóknarar sögðu Maxwell snjalla í að fela sig og að hætta væri á því að hún myndi koma sér undan refsingu. Maxwell er sökuð um að hafa tekið þátt í brotum Epstein.

„Það verða engin réttarhöld fyrir þolendurna ef sakborgningi er gefinn kostur á að flýja og er full ástæða til þess að halda að það sé nákvæmlega það sem hún muni gera ef henni verður sleppt“, skrifuðu saksóknarar í dómsskýrslu. 

Þrjú erlend vegabréf og erlendir bankareikningar

Saksóknarar hafa óskað eftir því að Maxwell verði hneppt í áframhaldandi gæsluvarðhald. Hún var handtekin þriðja júlí síðastliðinn vegna ásakana um að hún hafi hjálpað til við að lokka og misnota ólögráða börn. Maxwell á þrjú erlend vegabréf og marga erlenda bankareikninga. Því vilja saksóknarar meina að hættan á því að hún flýi sé mikil. 

Áætlað er að Maxwell komi fyrir alríkisdómara á morgun, þriðjudag, en hún hefur neitað öllum sakargiftum. Búist er við því að í það minnsta muni einn af meintum þolendum Maxwell koma fyrir dóminn og óska eftir því að hún verði áfram í varðhaldi. 

Maxwell hafði lagt til að hún yrði látin „laus“ gegn tryggingu í þeim skilningi að hún fengi að fara í stofufangelsi þar sem hún væri með GPS-tæki á sér. 

mbl.is