Kínverjar setja viðskiptaþvinganir á repúblikana

Öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Marco Rubio eru á lista kínverskra …
Öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Marco Rubio eru á lista kínverskra stjórnvalda. AFP

Stjórnvöld í Kína hafa tilkynnt að viðskiptaþvinganir verði settar á hátt setta repúblikana til að svara þeim viðskiptaþvingunum sem bandarísk stjórnvöld settu á hátt setta kínverska stjórnmálamenn vegna meðferðar kínverskra stjórnvalda á úíg­úr-múslimum.

Öldungadeildarþingmennirnir Ted Cruz og Marco Rubio eru báðir á lista kínverskra stjórnvalda. BBC greinir frá.

Bandarísk stjórnvöld kynntu um sínar viðskiptaþvinganir fyrir helgi og ná þær til  fjár­hags­legra hags­muna Chen Quanguo, for­manns komm­ún­ista­flokks­ins í Xinjiang, í Banda­ríkj­un­um og þriggja annarra hátt­settra kín­verskra emb­ætt­is­manna.

Enn er óljóst hvers konar viðskiptaþvinganir kínversk stjórnvöld ætli að leggja á repúblikana. Auk þeirra Rubio og Cruz eru þingmaðurinn Chris Smith, Sam Brownback og nefndarmenn í þingnefnd sem fjallar um málefni Kína.

Í yfirlýsingu kínverska utanríksráðuneytinu segir að aðgerðirnar séu svar við „röngum aðgerðum“ Bandaríkjanna.

„Við hvetjum Bandríkin til að afturkalla rangar aðgerðir sínar og hætta að skipta sér að innanríkismálefnum Kína og kínverskum hagsmunum,“ sagði talskona ráðuneytisins Hua Chunying.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert