Leggur gildru fyrir starfsmenn

Donald Trump, Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti. AFP

Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, hefur tjáð starfsmönnum þess að unnið sé að því finna hvaða aðilar séu að leka leynilegum upplýsingum til fjölmiðla. Hefur hann af þeim sökum veitt ákveðnum starfsmönnum upplýsingar með það fyrir augum að kanna hvort þær leki. Þetta kemur fram í umfjöllun Axios um málið. 

Að því er fram kemur í fréttinni hefur Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lagt mikla áherslu á að finna starfsmenn sem vinna markvisst gegn embættinu. Talsvert hefur borið á því að upplýsingar innanhúss séu að rata í fjölmiðla við litla kátínu forsetans. Með þessu eru vonir bundnar við að hægt verði að uppræta vandamálið. 

Ekki er langt um liðið frá því að Meadows sagði frá því að hann hefði rekið ríkisstarfsmann sem lak upplýsingum. Hafði umræddur aðili lekið upplýsingum um að til skoðunar væri að herða lög gagnvart samfélagsmiðlum. Frá þeim tíma og nú eftir yfirlýsingu Meadows er talsverð spenna meðal starfsmanna Hvíta hússins, sem nú vita að þeir eru undir eftirliti. 

mbl.is