Svíar styðja aðgerðir gegn Kína

Anne Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Anne Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar. Ljósmynd/Sænska stjórnarráðið

„Það eru tillögur að aðgerðum sem hafa verið lagðar til, aðallega af Þýskalandi og Frakklandi sem ég mun styðja vegna þess að við þurfum að bregðast við því sem er að eiga sér stað í Hong Kong,“ sagði Anne Linde, sænski utanríkisráðherra, á fundi hennar með utanríkisráðherrum Evrópusambandsins.

Evrópusambandið, líkt og mörg vestræn ríki, hafa fordæmt ný öryggislög sem tóku gildi í Hong Kong í maí kínverska þingið samþykkti þau án umræðu. Lögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins Hong Kong. Þá er rétturinn til þess að mótmæla verulega skertur með lögunum.

Kínversk stjórnvöld hafa stofnað nýja öryggismálastofnun í Hong Kong sem á að sjá um að framfylgja lögunum. Nú þegar hafa nokkur hundrað manns verið handteknir á grundvelli laganna og bækur eftir lýðræðissinna hafa verið fjarlægðar af opinberum bókasöfnun í Hong Kong. Þær verða ritskoðaðar og kannað verður hvort þær samrýmist nýju öryggislögunum.

Óljóst hvaða aðgerðir ESB ætlar að ráðast í

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varaði Kínverja í síðasta mánuði við „mjög neikvæðum afleiðingum“ ef stjórnvöld þar í landi myndu takmarka mannréttindi íbúa Hong Kong.

Evrópskir embættismenn hafa ekki viljað fara nákvæmar út í það hvað muni felast í þeim aðgerðum sem Evrópusambandið er að skoða gegn Kína en tveir evrópskir diplómatar hafa sagt að þær feli ekki í sér viðskiptabann geng Kína sem er næst stærsti viðskiptaaðili sambandsins.

Í staðinn er verið að skoða bann við útflutningi á búnaði sem gæti verið notaður til að pynta eða í þvingandi lögregluaðgerðum, svo sem gaddakylfur og gúmmíkúlur að því er segir í umfjöllun Reuters.

mbl.is