Zindzi, yngsta dóttir Mandela, er látin

Zindzi Mandela er hér til vinstri ásamt Zenani Mandela-Dlamini systur …
Zindzi Mandela er hér til vinstri ásamt Zenani Mandela-Dlamini systur sinni við jarðarför móður þeirra Winnie Madikizela-Mandela. AFP

Zindzi Mandela, yngsta dóttir Nelsons Mandela, fyrsta svarta forseta Suður- Afríku og andstæðings aðskilnaðarstefnunnar, lést í dag 59 ára að aldri. Cyril Ramaphosa, núverandi forseti Suður- Afríku tilkynnti um andlát hennar í dag. 

Winnie Madikizela-Mandela var móðir Zindzi sem var sendiherra Suður-Afríku í Danmörku þegar hún féll frá. Það vill svo til að í dag voru einnig 51 ár síðan fyrsti sonur Mandela lést. 

„Sendiherrann lést snemma í dag, 13. júlí 2020, á sjúkrahúsi í Jóhannesarborg,“ var haft eftir Ramaphosa í yfirlýsingu. Orsök andlátsins hafa ekki verið kunngjörð. 

Las upp áhrifamikið bréf föður síns

Zindzi var fædd og uppalin í borginni Soweto. Stóran hluta ævi hennar var faðir hennar fangelsi, eða í 27 ár, en hann var fangelsaður af aðskilnaðarsinnum, fólki sem studdi aðskilnað hvítra og svartra. 

Rétt eins og foreldrar hennar var Zindzi virkur andstæðingur aðskilnaðarstefnu og var hún virk í ungliðahreyfingu afríska þjóðþingsins. 

Margir minnast hennar fyrir það þegar hún las upp bréf frá föður sínum árið 1985, fyrir framan mikinn mannfjölda, þar sem faðir hennar hafnaði tilboði um lausn úr fangelsi frá P.W. Botha, þáverandi forseta sem var jafnframt aðskilnaðarsinni. 

mbl.is