Bakslag eftir afléttingar víða um heim

Hópskimanir á kórónuveiru í Flórída í Bandaríkjunum.
Hópskimanir á kórónuveiru í Flórída í Bandaríkjunum. AFP

„Í sannleika sagt: Lífið er ekki að fara að hverfa til fyrra horfs í fyrirsjáanlegri framtíð,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. „Of mörg lönd eru að taka ranga stefnu.“

Víða um heim eru svæði sem eru talin hafa farið of geyst af stað í tilslökunum samkomutakmarkana að súpa seyðið af þeim ráðstöfunum. Þar þarf sums staðar að ganga til baka með tilslakanirnar og herða aftur á takmörkunum.

Í Hong Kong eru í þann mund að taka gildi ströngustu samkomutatakmarkanir sem verið hafa frá upphafi faraldursins á svæðinu. Þetta er gert þar sem yfirvöld telja að hættan á meiriháttar hópsmiti sé mikil. Allir þurfa að vera með grímur og bannað er að borða kvöldmat inni á veitingastöðum. Disneyland lokar. Guardian fjallar um málið.

Á Filippseyjum eru 250.000 manns á leið í allsherjarútgöngubann til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Ráðamenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum eiga í fullu fangi með að hemja faraldurinn. Þar er verið að ganga til baka með afléttingar, verið er að loka börum, veitingastöðum, kvikmyndahúsum og söfnum. Dagleg tilfelli í ríkinu eru fleiri en þau voru í síðustu viku og í sumum héruðum ríkisins eru lokanirnar enn víðtækari og taka til hárgreiðslustofa, kirkja og líkamsræktarstöðva.

Í New South Wales í Ástralíu er nú bannað að vera fleiri en 300 á einum og sama stað, eftir að hópsmit átti sér stað á bar eftir að faraldurinn hafði verið í rénun um skeið. Á sama tíma er ástandið mjög svart í Viktoríufylki, þar sem 270 tilfelli greindust á einum degi, en það eru aðeins nokkrar vikur frá því að aðeins greindust örfá smit á dag. Þar er allsherjarútgöngubann næstu vikur.

Annað útgöngubann í Melbourne

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert