Fauci orðinn skotspónn Hvíta hússins

Dr. Anthony Fauci hefur undanfarið borið til baka ýmis ummæli …
Dr. Anthony Fauci hefur undanfarið borið til baka ýmis ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um faraldurinn í Bandaríkjunum. AFP

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hefur undanfarið verið gagnrýndur nokkuð harðlega af ráðherrum og embættismönnum í ríkisstjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta. Talsmenn Hvíta hússins gáfu á sunnudaginn út minnisblað yfir meint röng ummæli Fauci síðan kórónuveirufaraldurinn skall á Bandaríkjunum.

Togstreitan á milli heilbrigðissérfræðinga og Donald Trump Bandaríkjaforseta er sögð hafa aukist mjög undanfarið og hafa þeir sem hliðhollir eru forsetanum m.a. bent á að Fauci hafi breytt ráðleggingum sínum varðandi grímunotkun almennings – að því er virðist til að grafa undan lækninum. Fauci hefur svarað fyrir það meðal annars fyrir þingnefnd.

Er Fauci sagður vera orðinn skotspónn Hvíta hússins á sama tíma og tilfellum kórónuveirusýkinga fjölgar mjög í Bandaríkjunum. Staðfest tilfelli eru nú orðin fleiri en 3,3 milljónir og dauðsföll orðin fleiri en 135 þúsund. BBC greinir frá.

Minnisblaði um meintar rangfærslur Fauci lekið 

Undanfarið hafa ummæli Fauci um faraldurinn í Bandaríkjunum stangast á við ummæli Trump og hefur Fauci borið til baka það sem forsetinn hefur sagt um að faraldurinn sé á niðurleið í Bandaríkjunum. Einnig hefur Fauci ítrekað varað við því að ríki hefji afléttingar á samkomutakmörkunum og sóttvarnaráðstöfunum of snemma.

Í minnisblaði Hvíta hússins, sem er sagt hafa verið lekið til fjölmiðla, segir að „nokkrir embættismenn innan Hvíta hússins hafi áhyggjur af því hversu oft Dr. Fauci hafi haft rangt fyrir sér.“

Þrátt fyrir að Hvíta húsið hafi haldið því fram í gær að Fauci og Trump eigi í „góðu samstarfi“, þá sagði Peter Navarro, ráðgjafi Trump, við fjölmiðilinn CSB News: „Ef þú spyrð mig hvort ég hlusti á ráðleggingar Dr. Fauci, þá geri ég það með fyrirvara.“

Navarro sagði einnig að Fauci hefði „haft rangt fyrir sér um alla hluti“ sem þeir hafa átt samskipti um.

Trump ekki alltaf sammála Fauci en kann vel við hann

Á viðburði í Hvíta húsinu í gær sagði forsetinn að hann ætti í góðu sambandi við Fauci.

„Ég er í góðu sambandi við Dr. Fauci og hef verið í langan tíma, alveg frá byrjun. Ég er ekki alltaf sammála honum en okkur kemur vel saman og ég kann vel við hann persónulega.“

Fyrr um daginn hafði Trump hins vegar endurtíst ummælum frá leikjaþáttastjórnanda sem sakaði „alla“ um að ljúga um kórónuveiruna, þar á meðal Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC).

Síðar sagði fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Kayleigh McEnany, fjölmiðlafólki að forsetinn bæri enn traust til CDC (US Centers for Disease Control) og að tíst forsetans hefði endurspeglað óánægju hans með „nokkra óvinveitta einstaklinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert