Landamæri BNA og Kanada lokuð fram í ágúst

Landamærin hafa verið lokuð fyrir „ónauðsynlegar ferðir“ frá því 21. …
Landamærin hafa verið lokuð fyrir „ónauðsynlegar ferðir“ frá því 21. mars. 400.000 manns ferðast á milli landamæranna daglega í venjulegu árferði. AFP

Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Kanada undirbúa nú að framlengja lokun landamæra ríkjanna til 21. ágúst. Þetta hefur AFP eftir ónafngreindum heimildarmanni.

Landamærin, sem eru þau lengstu í heimi, hafa verið lokuð fyrir öðrum en flutningabílum frá 21. mars til að bregðast við kórónuveirufaraldrinum. Núgildandi takmarkanir renna út eftir viku, 21. júlí en samkvæmt heimildum er, sem fyrr segir, ráðgert að framlengja lokunina um einn mánuð.

Leiðtogar nokkurra kanadískra fylkja hafa talað gegn því að landamærin að Bandaríkjunum verði opnuð að svo stöddu enda virðist kórónuveirufaraldurinn síst í rénun þar í landi. Tæplega 27.000 tilfelli veirunnar greindust í Bandaríkjunum í gær og létust 452. Þá eru virk smit í landinu 1,8 milljónir. 

Nýleg könnun leiddi í ljós aðeins 11 prósent Kanadabúa vilja að landamærin verði opnuð að svo stöddu, samanborið við helming Bandaríkjamanna.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanda, töluðu saman í gær og sagði Trudeau við blaðamenn að því loknu að ákvörðun yrði tilkynnt á næstu dögum. „Við áttum okkur á að ástandið er enn flókið í Bandaríkjunum þegar kemur að COVID-19,“ sagði Trudeau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert