Maxwell segist áfram saklaus

Mótmælendur sátu fyrir utan dómshúsið í dag þegar Maxwell kom …
Mótmælendur sátu fyrir utan dómshúsið í dag þegar Maxwell kom fyrir dómara. AFP

Ghislaine Maxwell, fyrr­ver­andi kær­asta og sam­starfs­kona barn­aníðings­ins Jef­frey Ep­stein, neitaði öllum sakargiftum fyrir dómi í dag. Maxwell er sökuð um að hafa tekið þátt í brotum Epsteins. Hún hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í byrjun júlí og hefur alltaf haldið sakleysi sínu fram. 

Maxwell er gefið að sök að hafa aðstoðað Epstein við að lokka ólögráða stúlkur á heimili þeirra þar sem hann hafi svo misnotað þær. Þá er hún einnig sökuð um að hafa tekið þátt í hluta af misnotkuninni. 

Enn óljóst hvað verður með varðhald

Maxwell er 58 ára gömul og af breskum ættum. Hún var handtekin annan júlí síðastliðinn í stórhýsi sínu í Nýju Hampshire. 

Réttarhöld yfir henni fara fram 21. júlí á 2021 og er viðbúið að þau muni taka þrjár vikur. 

Eins og mbl.is greindi frá í gær hvöttu saksóknarar dómara til að framlengja gæsluvarðhald yfir Maxwell sem hefur óskað þess að henni verði leyft að yfirgefa fangelsið sem hún nú situr í og fara heldur í stofufangelsi. Saksóknarar sögðu mikla hættu á því að Maxwell myndi flýja enda á hún þrjú vegabréf og meira en tuttugu milljónir bandaríkjadala á nokkrum bankareikningum, þar á meðal erlendum bankareikningum. 

Lögmenn Maxwell hafa þrýst á að henni verði sleppt gegn tryggingu og sagt að ekki sé hætta á því að hún flýi þrátt fyrir að hún hafi falið sig frá því að mál Epsteins kom upp á yfirborðið og fram að handtöku. Hún hafi verið að fela sig fyrir fjölmiðlum, ekki lögreglu. 

Dómari mun skera úr um varðhald síðar. 

Frétt New York Post

mbl.is