Varar við Burger King-stimplum í vegabréf

Svíar geta fengið frían hamborgara á Burger King, en hætta …
Svíar geta fengið frían hamborgara á Burger King, en hætta um leið á að ónýta vegabréfið sitt. Þessi mynd er tekin í Wales. AFP

Sænska lögreglan hefur séð ástæðu til að vara fólk við því að vegabréfin þeirra geti verið ónothæf ef í þeim er stimpill frá skyndibitastaðnum Burger King.

Tilefni viðvörunarinnar er auglýsingaherferð sem Burger King í Svíþjóð efndi til á dögunum. Sagði í auglýsingunni að þar sem sænsk vegabréf væru ekki jafnnothæf þetta sumarið og oft áður ætlaði fyrirtækið að bjóða Svíum upp á að nota vegabréfin á annan hátt. Svíar gætu komið á skyndibitastaðinn, fengið stimpil í vegabréfið og þegið hamborgara að launum.

Sænsku landamæralögreglunni líst illa á uppátækið. „Í sænskum lögum finnst ekkert bann við því að færa stimpla, aðra en innan- og utanríkisstimpla í vegabréfið,“ segir í færslu frá landamæralögreglunni. Hins vegar geti fólk lent í vandræðum erlendis þar sem reglurnar eru öðruvísi og hugsanlega litið á gjörninginn sem eyðileggingu á vegabréfinu.

Auglýsingameistarar Burger King virðast raunar hafa áttað sig á þessum möguleika sjálfir, því í smáa letrinu í auglýsingunni er fólki bent á að það hætti á að ónýta passann sinn kjósi það að láta stimpla í hann.

Frétt Svenska dagbladet

Smáa letrið í auglýsingu Burger King.
Smáa letrið í auglýsingu Burger King. Skjáskot/Facebook
mbl.is