Fjölskylda Floyd lögsækir Minneapolis-borg

Lögmaður fjölskyldunnar Benjamin Crump ræðir við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið …
Lögmaður fjölskyldunnar Benjamin Crump ræðir við fjölmiðla fyrir utan dómshúsið í dag. AFP

Fjölskylda George Floyd, sem var drepinn af lögreglunni í Minneapolis-borg í maí, tilkynnti í dag að hún ætlaði að lögsækja borgaryfirvöld vegna andláts hans. Fjórir lögreglumenn hafa verið ákærðir vegna málsins.

„Það var ekki bara hné lögreglumannsins Derek Chauvin á hálsi George Floyd í átta mínútur og 46 sekúndur sem drap Floyd, heldur var það hné lögreglunnar í Minneapolis-borg í heild sinni,“ sagði lögmaður fjölskyldunnar Benjamin Crump fyrir framan dómshús í Minneapolis í dag. Ekki hefur verið gert opinbert hversu há bótafjárhæðin er sem fjölskyldan fer fram á.

Crump sagði söguna sýna að lögreglan í borginni geri greinarmun á fólki þegar kemur að handtökum og hversu hart hún tekur á fólki, sérstaklega þegar kemur að svörtum karlmönnum. Minneapolis-borg var dæmd til að greiða 20 milljónir Bandaríkjadala í maí á síðasta ári eftir að lögreglumenn drápu jógakennara sem sat í bíl sínum.

Crump sagði málið fordæmalaust og að lögsókninni væri ætlað að setja fordæmi sem komi í veg fyrir að lögregluyfirvöld drepi jaðarsett fólk í framtíðinni. Svart fólk væri nú að glíma við tvær lýðheilsuógnir, annars vegar kórónuveirufaraldurinn og hins vegar lögregluofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert