Stungin til bana í Noregi

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ein kona er látin og önnur er alvarlega særð eftir hnífstunguárásir í Sarpsborg í Noregi. Þriðja konan var stungin í handlegginn og er með minni áverka. Árásarmaðurinn var handtekinn í húsnæði í miðborginni en ein kvennanna bar kennsl á manninn. 

Í frétt Aftenposten kemur fram að maðurinn hafi áður komist í kast við lögin en enn séu ekki öll málsatvik ljós. Aftenposten vísar í frétt Sarpsborg Arbeiderblad þar sem haft er eftir eiginmanni einnar konunnar að árásarmaðurinn hafi bankað á dyr á heimili þeirra og komið inn. Hann hafi síðan ráðist á eiginkonu mannsins. „Við sátum og vorum að horfa á sjónvarpið þegar bankað var á dyr. Þegar ég opnaði reyndi hann að stinga mig en ég komst undan,“ hefur blaðið eftir manninum. Hann segir að síðan hafi árásarmaðurinn farið inn og stungið eiginkonu hans í handlegginn.

Á vef norska ríkisútvarpsins kemur fram að fyrsta tilkynning um árásirnar í borginni hafi borist um miðnætti en þar hafði kona verið stungin með hníf á umferðarmiðstöð í miðborginni. Stuttu síðar bárust tilkynningar um tvær aðrar árásir, aðra í St. Nikolas götu og hina í Oscars götu.

Þegar fyrsta tilkynningin barst sendi lögreglan fjölmennt vopnað lögreglulið á vettvang og gaf út tilkynningu á Twitter um að fólk héldi sig innandyra í borginni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er hún fullviss um að sá sem er í haldi sé árásarmaðurinn og að hann hafi verið einn að verki. Í öryggisskyni er mikill viðbúnaður enn hjá lögreglu og víða lögreglumenn á ferli í borginni. 

Sarpsborg er um 70 km suður af Ósló en þar búa um 55 þúsund manns.

mbl.is