Þróun bóluefnis gengur vel

Hertar sóttvarnareglur taka gildi víða í dag og snerta milljónir íbúa þessara landa og svæða. Á sama tíma hafa vonir glæðst um að stutt sé í að bóluefni finnist við kórónuveirunni. Bandaríska líftæknifyrirtækið Moderna mun síðar í mánuðinum hefja tilraunir á fólki á lokastigi þróunar bóluefnis við veirunni.Fyrri rannsóknir á lyfinu þykja lofa góðu.

Nokkur ríki eru að herða reglur vegna nýrra smita en alls hafa 13,2 milljónir jarðarbúa greinst með COVID-19. Af þeim eru rúmlega 576 þúsund látnir.

Meðal þeirra eru ríki í Asíu og við Kyrrahafið sem höfðu náð góðum árangri í baráttunni við veiruna en vegna nýrra smita er ljóst að baráttunni er hvergi nærri lokið. 

Í Hong Kong var börum, líkamsræktarstöðvum og snyrtistofum lokað að nýju í dag og eins var sett nýtt samkomubann þar sem miðað er við að ekki megi fleiri en fjórir koma saman. 

Flestir íbúar Hong Kong gengu með andlitsgrímur í vetur án þess að stjórnvöld hafi krafist þess þegar veiran kom upp á meginlandi Kína. Nú hafa yfirvöld fyrirskipað að allir þurfi að bera grímur í almenningssamgöngufarartækjum. Þeir sem hunsa reglurnar þurfa að greiða 650 Bandaríkjadali í sekt. Eins hefur verið gefin út viðvörun í Japan og íbúar beðnir um að hafa varan á sér. 

Indverska ríkið Bihar verður lokað að nýju á morgun en útgöngubann tekur þar gildi á miðnætti. Alls eru íbúar Bihar um 125 milljónir talsins.

Í Ástralíu biðluðu stjórnvöld til almennings í dag um að fylgja reglum sóttvarnalæknir en í Melbourne eru fimm milljónir íbúa í sóttkví vegna veirunnar.

Tugþúsundir nýrra smita eru skráð í Bandaríkjunum á hverjum degi og í gær voru ný smit 63 þúsund talsins. 

mbl.is