„Blygðunarlaus valdbeiting“ lögreglu í Portland

Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.
Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. AFP

Kate Brown, fylkisstjóri í Oregon-fylki í Bandaríkjunum,  hefur sakað lögreglumenn í ómerktum bílum sem handtóku mótmælendur í borginni Portland fyrir „blygðunarlausa valdbeitingu“.

Lögreglumenn sem sendir voru af Bandaríkjaforseta hafa einnig beitt táragasi og skotvopnum á stóra hópa mótmælenda. 

Chad Wolf, framkvæmdastjóri innanríkisöryggismála, kallaði mótmælendurna „ofbeldisfullan múg“.

Aðgerðarsinnar í Portland hafa, ásamt aðgerðarsinnum víðsvegar um Bandaríkin og heiminn allan, mótmælt valdbeitingu lögreglu síðan George Floyd, svartur Bandaríkskur karlmaður, var drepinn í haldi lögreglu 25. maí síðastliðinn. 

Grípa mótmælendur og keyra í burt

Samkvæmt frétt Oregon Public Broadcasting hafa lögreglumenn mætt á svæði þar sem mótmælendur aðhafast í ómerktum bílum, klæddir í feluliti, og gripið mótmælendur af götunum án skýringa og keyrt svo burt með þá. 

Síðastliðna viku hefur spenna á milli lögreglumanna og mótmælenda aukist mjög en Trump sendi þá fyrrnefndu til Portland fyrir tveimur vikum síðan, með það að markmiði að draga úr mótmælum.

Samkvæmt Oregon Public Broadcasting hafa þessar undarlegu „handtökur“ lögreglumannanna átt sér stað síðan 14. júlí, að minnsta kosti. Mark Pettibone, einn mótmælenda, lýsir því í samtali við sjónvarpsstöðina að honum hafi verið hent inn í sendibifreið 15. júlí síðastliðinn þar sem vopnaðir menn tóku á móti honum. 

Pettibone segir að í kjölfarið hafi hann verið færður í fangageymslu. Eftir að hann neitaði að svara spurningum lögreglumanna var honum leyft að fara án þess að hann hefði fengið skýringar á því hvers vegna hann var handtekinn.

Frétt OPB

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert