Kynlífshneyksli eftir hópsýkingu

AFP

Yfirvöld í Ástralíu hafa hafið réttarrannsókn vegna fjölda smita í Victoria-ríki sem rekja má til smitaðra starfsmanna á hóteli sem hýsti erlendra ferðamenn í sóttkví. 

Þeim sem koma til Ástralíu að utan er gert að fara í 14 daga sóttkví við komuna á hótelum sem yfirvöld reka. Fram kemur í frétt CNN að 31 smit megi rekja til Stamford Plaza-hótelsins í Melbourne og nokkur smit til viðbótar má rekja til Rydges-hótelsins sem er einnig í Victoria. 

Réttarrannsóknin beinist að meintum brotum starfsmanna hótelanna, en þeir eru meðal annars grunaðir um að hafa stundað kynlíf með hótelgestum sem áttu að vera í sóttkví. 

Útgöngubann hefur verið sett á að nýju í ýmsum hverfum Melbourne. Virk smit eru um 370 í borginni. 

mbl.is