Spánarkonungur neitar að afsala sér titlinum

Jóhann Karl, fyrrverandi Spánarkonungur. Rey emérito á spænsku.
Jóhann Karl, fyrrverandi Spánarkonungur. Rey emérito á spænsku. AFP

Jóhann Karl, fyrrverandi Spánarkonungur, hefur þvertekið fyrir að afsala sér titli sínum sem „konungur emeritus“ eftir að upp komst um leyndar bankabækur hans í Sviss.

Jóhann Karl afsalaði sér krúnunni árið 2014 í kjölfar orðróms um vafasamt einkalíf hans. Við krúnunni tók sonur hans Filippus. Jóhann Karl var á sínum tíma í miklum metum á Spáni eftir að hafa tekið við krúnunni við andlát einræðisherrans Francos, fyrir hans tilstuðlan, en átt lykilþátt í því að gera Spán að lýðræðisríki. Afhjúpanir síðustu ára hafa hins vegar orðið til þess að arfleifð hans kann að verða önnur.

Árið 2018 hófu saksóknarar í Sviss rannsókn á leyndum auðæfum Jóhann Karls í Sviss eftir fjölmiðlaumfjöllun um 100 milljóna dala gjöf konungs Sádi-Arabíu til Spánarkonungs árið 2008 en rannsóknin snýr að því hvort gjöfin hafi tengst því að spænsku fyrirtæki var úthlutað 6,7 milljarða evra samningi um byggingu hraðlestar frá Medínu til Mecca í Sádi-Arabíu. Hafa rannsakendur síðan komist á snoðir um tvo aflandsreikninga konungsins fyrrverandi, sem tengdir eru svissneskum bankareikningum hans.

Þá hefur spænska blaðið El País, sem jafnan hefur stutt konunginn dyggilega, greint frá því að Jóhann Karl hafi árið 2010 flogið til Sviss með 1,9 milljónir dala í skjalatösku sem hann sagði gjöf frá einvaldinum í Barein. Hafandi afsalað sér krúnunni nýtur Jóhann Karl engrar friðhelgi á Spáni, hvenær svo sem meint brot áttu sér stað. Því verður tíminn að leiða í ljós hver afdrif hans verða. 

Uppljóstranirnar eru taldar hafa slæm áhrif á ímynd sonar hans, Filippusar konungs, sem hefur hingað til neitað að tjá sig um það sem konungshöllin kallar „einkalíf“ Jóhanns Karls. Hefur því verið haldið fram að hann þurfi að taka stærri skref til að skilja sig frá föður sínum; afneita honum, svo að segja.

„Filippus ætti að gefa spænskum almenningi greinargóða skýringu og hann ætti einnig að huga að því að gera tekjur sínar aðgengilegar almenningi rétt eins og kjörnir stjórnmálamenn,“ segir José Antoni Zarzalejos, einarður konungssinni og fyrrverandi ritstjóri hins konungssinnaða blaðs ABC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert