Tryggja sér 190 milljónir skammta af bóluefni

Farþegi er hitamældur á Heathrow-flugvelli í London. Útbreidd bólusetning er …
Farþegi er hitamældur á Heathrow-flugvelli í London. Útbreidd bólusetning er talin greiðasta leið manna að því að samfélagið geti komist í eðlilegt horf á ný eftir kórónuveirufaraldurinn. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi um kaup á 90 milljónum skammta af kórónuveirubóluefnum, sem er í þróun. Um er að ræða 30 milljónir skammta af afrakstri samstarfsverkefnis lyfjafyrirtækjanna BioNtech og Pfizer og 60 milljónir frá fyrirtækinu Valneva.

Hinir nýju samningar koma til viðbótar 100 milljónum skammta af bóluefnum sem er í þróun hjá vísindamönnum við Oxford-háskóla og fyrirtækinu AstraZenecha. Þýðir það að bresk stjórnvöld hafa tryggt sér 190 milljónir skammta af bóluefni, eða sem nemur um þreföldum mannfjölda ríkisins.

Útbreidd bólusetning gegn kórónuveirunni er talin greiðasta leiðin að því að samfélagið geti farið í eðlilegt horf á ný. Umfangsmiklar rannsóknir á fordæmalausum skala hafa því farið fram síðustu mánuði í þeim tilgangi að koma á markað nothæfu bóluefni. Með því að tryggja sér réttinn að ólíkum bóluefnum auka stjórnvöld líkurnar á að einhver þeirra verði nothæf.

Gæti verið að aldrei finnist bóluefni

Breska stjórnin hefur þegar komið upp vefsíðu þar sem Bretar geta skráð sig í tilraunabólusetningar fyrir veirunni, þegar þar að kemur, en markmiðið er að fá til þess hálfa milljón manns. 

„Sú staðreynd að við höfum marga efnilega kandídata sýnir að okkur miðar áfram á fordæmalausum hraða,“ hefur BBC eftir Kate Bingham, sem fer fyrir bóluefnastarfshópi bresku stjórnarinnar. „En ég brýni fyrir ykkur að vera ekki sjálfumglöð eða of bjartsýn. Staðreyndin er enn sú að við gætum hugsanlega aldrei fengið bóluefni, og ef við fáum slíkt þurfum við að vera undir það búin að það gæti verið bóluefni sem kemur ekki í veg fyrir að fólk fái veiruna heldur eitthvað sem dregur úr einkennum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert