Íbúar Nuuk kjósa um styttu af nýlenduherra

Skemmdarverk voru unnin á styttunni fyrir skemmstu, nánar til tekið …
Skemmdarverk voru unnin á styttunni fyrir skemmstu, nánar til tekið aðfaranótt þjóðhátíðardags Grænlendinga 21. júní, þegar rauðri málningu var slett á styttuna, sem er af Hans Egede, og á hana ritað enska orðið „decolonize“. AFP

Yfir stendur atkvæðagreiðsla meðal íbúa Nuuk í Grænlandi um hvort fjarlægja eigi styttu af gömlum nýlenduherra í borginni.

Skemmdarverk voru unnin á styttunni fyrir skemmstu, nánar til tekið aðfaranótt þjóðhátíðardags Grænlendinga 21. júní, þegar rauðri málningu var slett á styttuna, sem er af Hans Egede, og á hana ritað enska orðið „decolonize“ og vilja skemmdarvargarnir því væntanlega að Grænland fái sjálfstæði frá Dönum.

Talið er að skemmdarverkið tengist mótmælum í Bandaríkjunum í kjölfar morðsins á George Floyd, en þar hafa mótmælendur framið skemmdarverk og janfvel fellt styttur af sögufrægum mönnum sem tengdir eru við kúgun.

Egede var lútherskur trúboði, danskur og norskur að uppruna. Hann kom til Grænlands árið 1721 til að kristna norræna menn, stýrði Grænlandi fyrir hönd Dana og stofnaði meðal annars Nuuk, sem er nú höfuðstaður Grænlands. Íbúakosningunni lýkur á miðnætti í kvöld, en hún hófst 3. júlí.

Frétt grænlenska ríkisútvarpsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert