Búa sig undir norska innrás

Stærsta áfengisútsala Svíþjóðar er í Strömstad, skammt frá Svínasundi, rúmlega …
Stærsta áfengisútsala Svíþjóðar er í Strömstad, skammt frá Svínasundi, rúmlega 13.000 íbúa bæ. Þar kaupa Norðmenn 90 prósent af öllu sem selt er en drykkju bæjarbúar einir allt sem þar fer út væru það 483 lítrar á hvern íbúa bæjarins eldri en 15 ára. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Áfengisútsala sænska ríkisins, Systembolaget, býr sig undir hreina innrás Norðmanna í kjölfar tilkynningar norskra á stjórnvalda klukkan 14:00 á morgun, föstudag, sem mun meðal annars fjalla um tilslakanir í Svíþjóðarferðum Norðmanna, það er til hvaða svæða í Svíþjóð Norðmönnum muni leyfilegt að ferðast án þess að sæta tíu daga sóttkví við komuna til baka til Noregs.

Binda Svíar miklar vonir við Värmland-sýslu, eða lén eins og það heitir upp á sænsku, þar sem innan við 20 ný kórónuveirusmit á hverja 100.000 íbúa hafa greinst síðustu vikurnar og hefur Systembolaget brugðið á það ráð að flytja starfsfólk úr öðrum verslunum til nokkurra verslana í Värmland, svo sem í Charlottenberg, Töckfors og Årjäng. Värmland er beint austur af Ósló í Noregi og stutt fyrir margan Norðmanninn að fara.

Við öllu búnar

Bo Albertsson, upplýsingafulltrúi Systembolaget, segir norska ríkisútvarpinu NRK að verslanir á þeim svæðum, sem einkum er reiknað með að Norðmenn muni nú mega ferðast til sóttkvíarlaust, verði við öllu búnar, aukafólk sé flutt þangað til starfa og lagerar sneisafylltir.

Systembolaget, og reyndar fleiri sænskar verslanir nærri landamærunum, svo sem Nordby-verslunarmiðstöðin skammt frá Svínasundi, hafa staðið tómar síðustu mánuði og orðið af gríðarlegum fjármunum, en þessar verslanir gera að miklu leyti út á verslunarglaða Norðmenn, enda verðmunurinn umtalsverður milli landanna, nálægt 50 prósentum á áfengi og tóbaki, svo dæmi séu nefnd, auk þess sem sælgæti í Svíþjóð kostar aðeins brot af því sem það kostar í Noregi, ekki síst eftir að norska ríkisstjórnin hækkaði sykurskattinn svokallaða um 83 prósent 1. janúar 2018.

Samkvæmt tölum greiningarfyrirtækisins Capstan versla Norðmenn fyrir 2,22 milljarða norskra króna á ári í sænskum áfengisútsölum sem svarar til rúmlega 33 milljarða íslenskra króna og nemur sex prósentum af veltu Systembolaget.

483 lítrar á hvern íbúa eldri en 15 ára

Áfengisútsala Svía í smábænum Strömstad, einnig skammt frá Svínasundi, er sú stærsta í öllu landinu þrátt fyrir að íbúarnir séu aðeins rúmlega 13.000, enda kaupa Norðmenn 90 prósent alls áfengis sem þar er höndlað með og reiknaði norska dagblaðið Aftenposten það út í fyrra að drykkju íbúar Strömstad allt áfengi sem þar væri selt væru það 483 lítrar á ári á hvern íbúa bæjarins yfir 15 ára aldri. Til að setja það í samhengi gefur sami útreikningur norsku áfengisútsölunnar Vinmonopolet í Halden, örskammt frá landamærunum Noregsmegin, 6,4 lítra á hvern íbúa.

Albertsson upplýsingafulltrúi bendir á að Systembolaget hafi sínar reglur eins og aðrir um hve margir megi vera inni í verslununum samtímis og biðlar til Norðmanna að byrja ekki á að fara beint í áfengiskaupin þegar þeim verður heimil Svíþjóðarförin heldur ljúka gjarnan öðrum erindum áður svo álagið á áfengisverslanirnar jafnist út yfir daginn.

NRK

NRK II (svæði í Svíþjóð sem gætu orðið „græn“)

VG (Danir leyfa ferðir til tólf sænskra sýslna)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert