Bandaríkin taka ekki við nýjum erlendum nemum

Heimavistin í Harvard-háskóla verður líklega fámenn næsta skólaárið.
Heimavistin í Harvard-háskóla verður líklega fámenn næsta skólaárið. AFP

Bandaríkin munu ekki taka við neinum nýjum erlendum nemum í haust sem eru skráðir í nám sem fer alfarið fram í fjarnámi. Áður stóð til að fella landvistarleyfi erlendra námsmanna úr gildi ef áfangar þeirra verða einungis kenndir í fjarnámi í haust en hætt var við þau áform eftir að átján ríki hófu málaferli til að fá ákvörðuninni hnekkt.

Nýja ákvörðunin var kynnt í yfirlýsingu frá Útlendingastofnun Bandaríkjanna (ICE).

Ákvörðunin er sögð vera komin frá Donald Trump Bandaríkjaforseta og að hún sé til þess fallin að skapa þrýsting á þær menntastofnanir sem hafa ákveðið að færa kennslu sem áður var staðbundin yfir í fjarnám vegna kórónuveirufaraldursins.

Trump leggur áherslu á að skólar opni

Trump er mikið í mun að skólar opni á nýjan leik og hefur sakað ríkisstjóra úr röðum demókrata um að halda skólum lokuðum í þeim tilgangi að láta Trump líta illa út í aðdraganda forsetakosninganna sem fara fram í Bandaríkjunum í nóvember.

Á síðasta námsári voru fleiri en ein milljón erlendra nema í Bandaríkjunum samkvæmt opinberum tölum. Margir skólar eru háðir því að þessir nemar greiði skólagjöld.

Flestir framhalds- og háskólar í Bandaríkjunum eiga eftir að gefa út hvernig námi á næsta misseri verður háttað en Harvard-háskóli hefur gefið það út að allir áfangar sem kenndir verða skólaárið 2020-21 muni fara fram í fjarnámi, með „fátíðum undantekningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert