Grunaður um að að hafa myrt fyrrverandi unnustu

Tæplega þrítugur Chile-búi, Nicolas Zepeda, var framseldur til Frakklands í dag en þar eru að hefjast réttarhöld vegna hvarfs fyrrverandi unnustu hans fyrir tæpum fjórum árum.

Zepeda er grunaður um að hafa myrt Narumi Kurosaki sem var 21 árs er hún hvarf frá háskóla sínum í Bes­ançon eftir kvöldverð með Zepeda í desember 2016.

Flugvél Zepeda kom frá Santiago í morgun og lenti á Charles de Gaulle-flugvellinum í París um hádegi. Farið verður með hann beint á fund dómara í Besancon, sem er skammt frá Ölpunum, en franskir saksóknarar hafa í þrjú og hálft ár reynt að fá hann til að koma til Frakklands og svara til saka.

Kurosaki, sem var frá Japan, kynntist Zepeda, sem kemur úr sterkefnaðri fjölskyldu, í heimalandi sínu árið 2014. Eftir að þau hættu saman elti hann hana til Bes­ançon í byrjun desember og 4. desember sáust þau koma saman inn í heimavist skólans þar sem hún bjó. Ekki var tilkynnt um hvarf hennar fyrr en nokkrum dögum síðar og þá hafði Zepeda snúið aftur heim til Chile.

Rannsóknarlögreglan telur að hann hafi drepið Kurosaki í afbrýðiskasti yfir því að hún var komin í nýtt samband. Hins vegar hefur lík hennar aldrei fundist. Í mars á þessu ári samþykktu yfirvöld í Chile loks að framselja hann og hefur Zepeda verið í stofufangelsi síðan þá í 120 km vestur af Santiago. Vegna kórónuveirunnar og lokun landamæra tafðist framsalið um nokkra mánuði. 

Móðir Korosaki, Taeko, segir í bréfi sem lesið var upp fyrir dómi í Chile þegar framsalskrafan var tekin fyrir, að þrjú ár séu liðin frá hvarfi dóttur hennar. „Ég vona að réttað verði yfir Nicolas í Frakklandi og ég er til í að fórna lífi mínu til þess að svo verði. Við munum aldrei fyrirgefa Nicolas sem svipti Narumi lífi og tók hana frá allri fjölskyldunni.“

Saksóknarar segja að nokkrir námsmenn hafi lýst hávaða og gráti frá íbúð Korosaki þetta kvöld án þess að nokkur hafi haft samband við lögreglu. Þeir segja að Zepeda hafi hótað henni í myndskeiði á netinu sem hann fjarlægði síðar. 

Eftir komuna til Frakklands 2016 leigði Zepeda bíl og ók til Bes­ançon. Hann stoppaði á leiðinni til að kaupa eldspýtur, eldfiman vökva og klór í matvöruverslun. 

Nicolas Zepeda sést hér í fylgd lögreglu á flugvellinum í …
Nicolas Zepeda sést hér í fylgd lögreglu á flugvellinum í Chile í gær. AFP
Nicolas Zepeda.
Nicolas Zepeda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert