Í kappflugi við klukkuna

„Nú er bara að krossleggja fingurna,“ segja mæðgurnar Anne-Lise Rolland …
„Nú er bara að krossleggja fingurna,“ segja mæðgurnar Anne-Lise Rolland og Maria Mellem á leið heim til Noregs frá Málaga á Spáni en flug þeirra með Norwegian á að lenda á Gardermoen klukkan 23:42 í kvöld. Tíminn sem skilur að sóttkví eður ei er þegar hjólbarðar vélanna kyssa norskt malbik. Enginn má sköpum renna. Skjáskot/Myndsímtal við NRK

Tvær norskar farþegavélar eru nú á leið heim frá Spáni til Gardermoen-flugvallarins við Ósló með farþega sína og er ljóst að þar munu mínútur skipta sköpum um það hvort farþegar þeirra muni hefja dvöl sína á fósturjörðinni í tíu daga sóttkví eður ei.

Vél SAS er á leið frá Alicante með áætlaðan lendingartíma á Gardermoen klukkan 23:54 að norskum tíma og önnur vél, frá Norwegian, er í loftinu frá Málaga og á að lenda klukkan 23:42. Sá tími sem gildir varðandi sóttkví farþeganna er þegar hjólbarðar vélanna kyssa malbikið á Gardermoen og ljóst að nú má fátt út af bera.

Mæðgurnar Anne-Lise Rolland og Maria Mellem sitja um borð í vél Norwegian. Þær áttu í raun flug heim á þriðjudaginn í næstu viku en keyptu sér nýja flugmiða til að freista þess að komast heim áður en nýju ferðareglurnar, sem norsk stjórnvöld kynntu formlega í dag, taka gildi en samkvæmt þeim verða Spánn og Andorra rauð svæði á nýjan leik vegna fjölgunar kórónuveirutilfella þar eins og mbl.is greindi frá í dag.

Rolland, móðirin í tvíeykinu, segir að ferðin hafi verið á dagskrá síðan í janúar. Þegar heimsbyggðin gekk úr skaftinu næstu mánuði á eftir hafi þær ákveðið að fresta förinni en snúist hugur þegar norsk stjórnvöld gáfu grænt ljós á fjölda Evrópulanda fyrr í sumar, þar á meðal Spán. Rolland á sumarhús í Casares Costa sem að hennar sögn þarf að dytta að sem var öðrum þræði tilgangur fararinnar.

Síðasta vikan hafi hins vegar farið að mestu leyti í að skipuleggja heimförina eftir að norsk stjórnvöld sendu út forviðvörun á laugardaginn um að Spánn færi líklega á rauða listann á ný. Það tókst með naumindum og sitja þær mæðgur nú í síðustu vélinni sem mögulegt er að nái til Noregs áður en hurð skellur. Niðri í farangursrýminu lúrir hundur þeirra mæðgna, Lucas, í búri sínu, fullkomlega ómeðvitaður um hvað eigendur hans gætu átt yfir höfði sér.

Mæðgurnar á flugvellinum í Málaga fyrir flugtak snemmkvölds. Með þeim …
Mæðgurnar á flugvellinum í Málaga fyrir flugtak snemmkvölds. Með þeim er Lucas, kannski eini áhyggjulausi farþeginn með flugi Norwegian til Gardermoen í kvöld. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þau [starfsfólk Norwegian] halda að við náum fyrir miðnætti. Nú er bara að krossleggja fingurna,“ sagði Rolland í myndsímtali við norska ríkisútvarpið NRK rétt fyrir flugtak frá Málaga fyrr í kvöld.

Tefla ekki öryggi í tvísýnu

Tonje Sund, einn upplýsingafulltrúa SAS í Noregi, segir NRK að horfurnar séu góðar á að SAS-vélin lendi á Gardermoen fyrir miðnætti. Spili þar meðal annars inn í að flugumferð sé mun minni nú, en þegar allt er í eðlilegu horfi, og vélin geti því flogið beinni leið en ella á styttri tíma.

Tekur hún þó fram að brugðið geti til beggja vona og flugfélagið tefli aldrei öryggi farþega í tvísýnu í skiptum fyrir skemmri flugtíma.

John Eckhoff upplýsingafulltrúi, einnig hjá SAS, sagði við dagblaðið VG snemma í kvöld að vélin hefði verið á áætlun þegar hún flaug frá Gardermoen til Alicante klukkan 15:50 í dag. Hún hefði komið til Alicante klukkan 19:15 og átt að fljúga þaðan klukkan 20:25. „Við erum með það í athugun hvort við fáum aðra flugleið yfir Evrópu sem sparar okkur tíma,“ sagði Eckhoff við VG en ekki er ljóst hvort úr varð.

NRK

VG

Finansavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert