Látin taka „tilgangslaust“ próf fyrir Íslandsferð

Talsmaður British Airways segir að flugfélagið hafi beðist afsökunar á …
Talsmaður British Airways segir að flugfélagið hafi beðist afsökunar á mistökunum. AFP

Breska flugfélagið British Airways hefur beðið hóp farþega afsökunar á því að hafa gert þeim að framvísa neikvæðum niðurstöðum kórónuveiruprófs fyrir brottför frá Bretlandi til Íslands.

Flugfélagið tók ekki tillit til þess að hér á landi eru þau próf ekki tekin gild heldur er Bretum gert að undirgangast skimun við komuna til Íslands eða fara í tveggja vikna sóttkví.

Clive Stacey, stofnandi ferðaskrifstofunnar Discover the World, hafði samband við fjölmiðilinn The Independent sem fjallaði um málið, eftir að hafa ítrekað reynt að benda starfsmönnum British Airways á að krafa þeirra ætti ekki við rök að styðjast.

Farþegahópurinn átti upphaflega að fljúga með Icelandair en þegar flugið sem þau voru bókuð í féll niður kom Icelandair þeim fyrir í flugi British Airways, eins og reglur gera ráð fyrir.

Íslendingar taki einungis mark á eigin prófum

Í kjölfarið hafi fólkinu verið greint frá því að ferðamenn þyrftu að fara í sýnatöku fyrir ferðina til Íslands þrátt fyrir að skilyrði til að koma hingað til lands geri ekki ráð fyrir því. Stacey, sem hefur selt ferðir til Íslands í 37 ár, sagði:

„Staðreyndin er sú að Íslendingar taka engin próf gild nema þeirra eigin og það er tekið við komuna til Íslands. Þannig að aumingja farþegarnir sem áttu bókað flug með BA voru varaðir við því að þeim yrði meinuð aðganga um borð í flugvélina ef þeir færu ekki í sýnatöku fyrir brottför.“

„Þeir þyrftu þá að taka og borga fyrir annað próf við komuna til Íslands. Þetta er versta mögulega byrjun á fríi á stað sem ætti að vera draumaáfangastaður fyrir fólk sem vill komast burt. Á svona tímum þurfa fyrirtæki að glíma við alls kyns vandamál svo að það er hægt að fyrirgefa mistök en ég eyddi mörgum klukkstundum í að sannfæra British Airways um að slaka á kröfum sínum án árangurs,“ bætti hann við.

Segir skimunarverkefnið í Keflavík ganga vel fyrir sig

Umræddur hópur farþega þurfti því að greiða 150 sterlingspund, sem jafngildir rúmlega 26 þúsund krónum, fyrir sýnatökupróf í Bretlandi fyrir brottför og svo þurftu þeir að greiða fyrir annað próf hér á landi.

Stacey tók það fram að skimunarverkefnið á Keflavíkurflugvelli gengi vel fyrir sig: „Niðurstöðurnar berast eftir fjóra til fimm tíma. Fólki er leyft að halda áfram för sinni og fá niðurstöðurnar sendar með smáskilaboðum. Þegar þú ert á ferðalagi um Ísland, þá vita þeir að þú hefur farið í sýnatöku og það dregur úr taugaspennu.“

Eftir að The Independent hafði samband við British Airways vegna málsins sagði talsmaður flugfélagsins að fallið hefði verið frá kröfunni og farþegahópurinn hefði verið beðinn afsökunar.

mbl.is