Norðmenn heim frá Spáni fyrir miðnætti

Hin nýja heimssýn norskra stjórnvalda, sem kynnt var rétt í …
Hin nýja heimssýn norskra stjórnvalda, sem kynnt var rétt í þessu, vekur hvort tveggja gleði og sorg, fjórar nýjar sýslur Svíþjóðar verða grænar en Spánn og Andorra verða rauð aftur og hafa Norðmenn frest til miðnættis til að koma sér heim sóttkvíarlaust. Kort/Lýðheilsustofnun Noregs/Folkehelseintituttet

Norsk stjórnvöld kynntu þjóðinni nýjar ferðareglur á blaðamannafundi sem hófst klukkan 14 í dag að norskum tíma og skilja þeir skilmálar, sem Olaug Bollestad landbúnaðarráðherra kynnti að þessu sinni, eftir sig blendnar tilfinningar.

Eins og Svíar gerðu fastlega ráð fyrir með miklum viðbúnaði, einkum í áfengisverslunum við landamærin, opnast fjórar nýjar sýslur, eða lén, landsins nú nágrönnunum í vestri, Kalmar, Värmland, Örebro og Östergötland, en áður hafði Norðmönnum verið gefið grænt ljós á að ferðast til Skåne, Blekinge og Kronoberg án þess að fara í sóttkví við heimkomu.

Öllu súrara í broti þykir vafalaust mörgum Norðmanninum að Spánn fær aftur rautt ljós auk Andorra þar sem þessi lönd eru á ný komin yfir mörk Lýðheilsustofnunar Noregs um að örugg svæði teljist aðeins þau þar sem nýsmit kórónuveirunnar eru færri en 20 á hverja 100.000 íbúa. Það hlutfall var í gær 30,9 á Spáni samkvæmt gögnum Sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC).

Gildistaka á miðnætti

Þá bætist Ungverjaland í hóp grænna ríkja á korti Lýðheilsustofnunar Noregs en Búlgaría, Króatía og Rúmenía halda rauðri merkingu.

Nýju reglurnar taka gildi á miðnætti í kvöld sem táknar að þeir Norðmenn, sem nú flatmaga á ströndum Íberíuskagans, hafa frest fram til þess tíma til að koma sér inn fyrir norsk landamæri sóttkvíarlaust. Aðrir fara í sóttkví en njóta hins vegar fullra sjúkradagpeninga frá norsku vinnumálastofnuninni NAV hafi þeir farið til Spánar á meðan landið tilheyrði enn græna hópnum. Þeir sem hins vegar fara til Spánar eftir breytinguna á miðnætti þurfa í sóttkví við heimkomu bótalaust.

Til að bera í bætiflákann fyrir þessi ótíðindi tilkynnti landbúnaðarráðherra hins vegar að norsk stjórnvöld hefðu ákveðið að leyfa bandaríska stórleikaranum Tom Cruise að koma til Bergen í haust til að taka þar upp hluta myndarinnar Mission Impossible 7 en eins og mbl.is greindi frá nýlega óskaði Cruise eftir fundi með Ernu Solberg forsætisráðherra fyrr í sumar með það fyrir augum að fá undanþágu fyrir sjálfan sig og annað starfsfólk myndarinnar til að heimsækja Bergen.

Tók ráðherra þó fram að undanþágan sætti stífum skilyrðum, allur hópurinn skyldi undirgangast veiruskimun á 48 klukkustunda fresti, vera meira og minna hólfaður niður þegar tökur væru ekki í gangi og greiða sjálfur allan kostnað við þetta, sex milljónir norskra króna, tæpar 90 milljónir íslenskar.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert