100 dagar í forsetakosningar

Donald Trump Bandaríkjaforseti og væntanlegur mótframbjóðandi hans Joe Biden fyrir …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og væntanlegur mótframbjóðandi hans Joe Biden fyrir forsetakosningarnar í nóvember. AFP

Nú eru 100 dagar í að forsetakosningar í Bandaríkjunum fari fram. Joe Biden, væntanlegur frambjóðandi demókrata, hefur enn nokkuð forskot á Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Í samantekt CNN kemur fram að samkvæmt könnun fréttastöðvarinnar Fox frá því fyrr í mánuðinum telja 29% kjósenda heimsfaraldur kórónuveirunnar vera stærstu áskorunina sem þjóðin stendur frammi fyrir. Aðeins 15% telja að hagkerfi Bandaríkjanna sé stærsta málefnið, en aðeins örsjaldan hefur annað málefni en hagkerfið verið talið stærst fyrir kosningar. 

Eins og staðan er núna virðast viðbrögð við kórónuveirunni vega þungt hjá kjósendum sem ekki hafa gert upp hug sinn fyrir kosningarnar. Takist Donald Trump Bandaríkjaforseta ekki að hefta útbreiðslu veirunnar fyrir kosningarnar í nóvember, gæti það þýtt aukið forskot fyrir andstæðing hans. 

Helmingi meira forskot en Clinton hafði 2016

Um 40% Bandaríkjamanna eru sáttir með störf forsetans eins og staðan er núna, eftir því sem fram kemur í frétt CNN, og 55% þjóðarinnar eru ósátt með störf hans. Frá árinu 1940 hefur enginn forseti náð endurkjöri þar sem svo mikið ber á milli þeirra sem eru sáttir og ósáttir með störf hans. Harry Truman var næst því fyrir kosningarnar 1948, en 6 prósentustig bar á milli ánægðra og óánægðra fyrir þær kosningar. 

Þegar skoðanakannanir eru flokkaðar eftir ríkjum er Biden með forskot í ríkjum sem samtals hafa 352 kjörmenn. Trump er með forskot í ríkjum sem hafa samtals 186 kjörmenn. Þá er Biden innan við prósentustigi í bæði Georgíu (16 kjörmenn) og Texas (38 kjörmenn) á eftir Trump og því ekki útilokað að hann kunni að ná forskoti í þeim ríkjum. 

Á þessum tímapunkti fyrir forsetakosningarnar 2016 hafði Hillary Clinton 8% stiga forskot á Donald Trump, en hún hafði 44% fylgi gegn 38% fylgi Trump þegar 100 dagar voru í forsetakosningarnar 2016. Joe Biden hefur nú um 52% fylgi en Trump 40% miðað við kannanir gerðar í júlímánuði. Biden hefur þannig meira en 50% fylgi, nokkuð sem Clinton hafði ekki og er í raun með helmingi meira forskot á Trump en Clinton hafði fyrir síðustu kosningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert