23 af 30 skipverjum með veiruna

Alls hafa 214 greinst með veiruna í Færeyjum.
Alls hafa 214 greinst með veiruna í Færeyjum. mbl.is/Björn Jóhann

23 af 30 skipverjum á rússneska togaranum AK-0749 Karelia hafa greinst með kórónuveiruna. Virk smit í Færeyjum er því orðin 26, en þrír erlendir ferðamenn greindust með veiruna fyrr í vikunni. 

Samkvæmt færeyska miðlinum Local var hluti áhafnarinnar skimaður á föstudag eftir að einn skipverji greindist með veiruna á sjúkrahúsi í Klaksvík, en hann hafði verið lagður inn vegna gruns um lungnabólgu. 

Togarinn var í höfn í Klaksvík en hefur nú verið fluttur til Fuglafjarðar. Áhöfnin hefur fengið þær leiðbeiningar að halda kyrru fyrir um borð í skipinu sem fer úr höfn á morgun. Tveir skipverjar eru á sjúkrahúsi. 

Talið er að alls átta heimamenn í Færeyjum hafi átt samskipti við smituðu skipverjana áður en þeir greindust. Þeir hafa allir verið settir í sóttkví. Þá hafa færeysk stjórnvöld gert yfirvöldum í Rússlandi viðvart. 

mbl.is

Bloggað um fréttina