Játar njósnir fyrir Kínverja í Bandaríkjunum

Kínverskir lögreglumenn utan við ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Chengdu í …
Kínverskir lögreglumenn utan við ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Chengdu í Kína. Bandarískir diplómatar eru þar í óðaönn að undirbúa flutning úr landinu eftir að kínversk stjórnvöld fyrirskipuðu lokun skrifstofunnar. AFP

Karlmaður frá Singapúr hefur játað að hafa stundað njósnir í Bandaríkjunum fyrir kínversk stjórnvöld. Maðurinn, Jun Wei Yeo, hefur verið ákærður fyrir að nota ráðgjafarfyrirtæki sitt í Bandaríkjunum sem yfirvarp til að safna upplýsingum fyrir kínversku leyniþjónustuna. 

Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að Yeo hafi játað fyrir alríkisdómstól að hafa verið ólöglegur njósnari Kínastjórnar árinu 2015-19. Í játningunni kemur fram að hann hafi leitað uppi Bandaríkjamenn með öryggisheimildir innan stjórnkerfisins, sem veittu aðgang að viðkvæmum gögnum. Hafi hann fengið þá til að skrifa skýrslur fyrir uppskáldaða viðskiptavini sína.

Þá er kínversk vísindakona, Juan Tang, í óskyldu máli sömuleiðis í haldi bandarískra yfirvalda en hún er sökuð um að hafa leynt tengslum sínum við kínverska herinn. Hún var meðal fjögurra Kínverja sem voru fyrr í vikunni ákærð fyrir að villa á sér heimildir til að fá landvistarleyfi, en hún er sögð hafa logið til um hafa ekki starfað innan frelsishers Kína (Chinese Peop­le's Li­berati­on Army). Starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) eru sagðir hafa fundið myndir af Juan Tang í herklæðum og komist yfir kínverskar greinar um tengsl hennar við herinn.

Uppákomurnar eru nýjustu vendingar í stigmagnandi deilum stjórnvalda í Kína og Bandaríkjunum en fyrr í vikunni fyrirskipuðu bandarísk stjórnvöld Kínverjum að loka ræðismannsskrifstofu sinni í Houston í Bandaríkjunum. Sú ákvörðun var ekki rökstudd í þaula en látið í veðri vaka að Kínverjar hefðu brotið gegn skilmálum Vínarsamkomulagsins um að gestaríkjum sé ekki heimilt að skipta sér af innanríkismálum gestgjafans.

Kínversk stjórnvöld voru ekki lengi að gjalda í sömu mynt og fyrirskipa lokun bandarísku ræðismannsskrifstofunnar í borginni Chengdu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert