„Getum við lært af Covid-19-tökum Íslands?“

Steinar Westin, prófessor emeritus í félagslæknisfræði, og Dag Svanæs, prófessor …
Steinar Westin, prófessor emeritus í félagslæknisfræði, og Dag Svanæs, prófessor í upplýsingatækni, báðir við Norska vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi, NTNU, telja norsk stjórnvöld eiga að fylgja fordæmi Íslendinga og hefja þegar veiruprófanir á landamærum Noregs. Ljósmynd/NTNU/Úr einkasafni

„Noregur hefur opnað fyrir ferðalög án sóttkvíar til og frá löndum þar sem fjöldi smitaðra er innan við 20 á hverja 100.000 síðustu tvær vikur á undan. Sú tala samsvarar 77 nýjum smitum í Noregi dag hvern, nokkuð sem við höfum ekki séð síðan 22. apríl.“

Á þessum orðum hefja tveir prófessorar við Norska vísinda- og tækniháskólann í Þrándheimi, NTNU, grein sína í norska dagblaðinu Aftenposten í morgun (þriðjudag) undir yfirskriftinni „Getum við lært af Covid-19-tökum Íslands?“ eða „Kan vi lære av Islands covid-19-håndtering?“

Greinarhöfundar eru þeir Dag Svanæs, prófessor í upplýsingatækni, og Steinar Westin, prófessor emeritus í félagslæknisfræði (n. sosialmedisin), sem benda á að meðalfjöldi nýsmita í Noregi sé nú sjö á dag, en hins vegar sé sú tala allt að því tíföld í mörgum þeirra landa sem fólk getur nú ferðast til Noregs frá sóttkvíarlaust.

Veruleg hætta á ferðum

„Þar sem margir ferðast til þessara landa og frá þeim eykst smithættan hér heima og getur auðveldlega orðið veruleg með tilliti til staðbundinna hópsmita,“ skrifa prófessorarnir og virðast hafa nokkuð til síns máls miðað við nýlegar fréttir af hópsmiti í bænum Moss þar sem tala smitaðra nálgast nú 30 á fáeinum dögum og mbl.is greindi frá í gær.

„Íslendingar völdu að leysa þetta vandamál með skylduprófi allra sem koma til landsins frá löndum þar sem smittölur eru hærri en hjá þeim. Síðustu vikurnar hafa Íslendingar prófað 23.100 manns við landamærin. Þar af hafa sjö reynst jákvæðir sem svarar til 30 smitaðra á hverja 100.000 íbúa [fyrirvari um að greinarhöfundar tilgreina ekki til hvaða vikna þeir vísa],“ skrifa þeir Svanæs og Westin.

Taka þeir fram að ekki sé heiglum hent að kasta tölu á hve margir muni ferðast yfir norsk landamæri á næstunni, en gera mætti ráð fyrir að framkvæma þyrfti í allt 10.000 veirupróf á ferðamönnum og Norðmönnum á heimleið dag hvern til að greina smit þegar við landamærin og geta gert ráðstafanir til að smitaðir dreifi ekki veirunni áfram.

„Þrjú smit á dag hljómar ekki sem ýkjamikið. Vandamálið er að með smitstuðulinn R nálægt 1, eins og heilbrigðisyfirvöld meta stöðuna núna, munu þrír smitaðir smita aðra þrjá og þannig mun það halda áfram þar til bóluefni liggur fyrir [...] Þetta smit mun ekki hverfa heldur halda áfram með þeim afleiðingum að smitum fjölgar dag frá degi,“ skrifa höfundar.

Þannig muni ef til vill um 300 manns vera sýktir kórónuveiru á hverjum tíma allt fram að jólum vegna smits sem borist hafi erlendis frá með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið.

Og niðurstaðan...

„Við mælum með því að dreginn verði lærdómur af Íslandi og prófanir á landamærum teknar upp til að draga úr innfluttu smiti. Kosti hvert próf 1.000 krónur [um 14.800 ISK] að meðtaldri vinnu þeirra sem prófin annast mun skylduprófun á landamærum kosta ríkið 1,5 milljarða [22,2 milljarða ISK] út árið. Er það verð sem við ættum að vera reiðubúin að greiða til að stöðva aðflutt smit?

Þungavigtaratriði í samfélagssáttmálanum milli ríkis og þegna í Noregi er að Noregur skuli vera öruggt land til búsetu. Covid-19-faraldurinn hefur skert öryggistilfinningu margra. Samfélagssáttmálinn mælir fyrir um að á ögurstundu sé það verkefni ríkisins að gera allt sem í þess valdi stendur til að skapa á ný raunhæft öryggi með því að veita þegnunum skjól fyrir þeim hættum sem að steðja,“ skrifa prófessorarnir og klykkja út með skýrri niðurstöðu sinni:

„Í ljósi þessara forsendna teljum við 1,5 milljarða króna út árið væga greiðslu að inna af hendi til að varðveita það öryggi gegn smiti sem við þegar höfum byggt upp með samstöðu allrar þjóðarinnar.“

Greinin í Aftenposten

Umfjöllun í kvöldfréttatíma NRK

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert