Keypti sportbíl fyrir Covid-lánið

AFP

Hinn 29 ára gamli David T. Hines frá Flórída keypti sér m.a. Lamborghini-sportbíl fyrir þær tæplega fjórar milljónir Bandaríkjadala sem hann fékk að láni frá ríkinu, en lánið kom úr sjóð sem ætlað var að aðstoða fyrirtæki að takast á við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

The New York Times greinir frá.

Maðurinn var handtekinn á mánudaginn og kærður fyrir fjársvik, en hann á yfir höfði sér allt að 70 ára fangelsisdóm.

Sagðist vera með 70 starfsmenn

Í apríl var Hines á meðal þeirra sem sóttu um fjárhagsaðstoð frá hinu svokallaða Paycheck Protection Program (PPP), lánasjóði sem settur var á stofn til að koma í veg fyrir að fyrirtæki þyrftu að segja upp starfsfólki.

Í umsókn sinni hélt Hines því fram að hann ræki fjögur fyrirtæki sem hefðu samtals 70 starfsmenn í vinnu. Mánaðarleg útgjöld fyrirtækjanna væru fjórar milljónir Bandaríkjadala.

Mánuði síðar hófust útgreiðslur á láninu, en að sögn yfirvalda voru útgreiðslurnar þrjár talsins og töldu samtals 3.984.557 dollara.

Peningnum eytt í skartgripi og bíl

Samkvæmt úttekt á fjárhagsskýrslum Hines eyddi hann peningnum í munaðarvörur á borð við skartgripi og fatnað, gistingar á hótelum og áðurnefndan sportbíl.

Afar smáum hluta lánsins virðist hafa verið varið í rekstur fyrirtækja Hines, að sögn rannsakanda bandarísku póstþjónustunnar, sem fer með rannsókn svikamála þar í landi.

Þótt fjögur fyrirtæki séu skráð á nafn Hines er talið að raunveruleg útgjöld þeirra séu um 200 þúsund dalir, en í yfirlýsingu póstþjónustunnar segir að fáar vísbendingar séu fyrir því að fyrirtækin bjóði upp á nokkurs konar þjónustu.

mbl.is