Milljónir barna svelta vegna COVID-19

Móðir með barn sitt í fanginu í Hajjah-héraði í Jemen. …
Móðir með barn sitt í fanginu í Hajjah-héraði í Jemen. Myndin er tekin 5. júlí 2020. AFP

Tæplega sjö milljónir barna yngri en fimm ára bætast í hóp þeirra sem þjást af vannæringu í heiminum af völdum kórónuveirunnar. Fyrir kórónuveirufaraldurinn bjuggu 47 milljónir barna við vannæringu á þessu aldursskeiði í heiminum.

Efnahagslegar og félagslegar afleiðingar COVID-19 birtast meðal annars í minni lífslíkum barna í heiminum. Flest þessara barna búa í löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar í Afríku og í Suðaustur-Asíu. 

Vegna útgöngubanns og truflana á dreifingu neyðaraðstoðar hafa Sameinuðu þjóðirnar varað við afleiðingunum á heilsu milljóna einstaklinga þvert á kynslóðir.

AFP

AFP-fréttastofan vísar í grein hóps sérfræðinga sem er birt í læknatímaritinu The Lancet en þar eru birtir útreikningar um mataröryggi í 118 fátækari ríkjum heims. Það leiðir líkum að því að 6,7 milljónir barna yngri en fimm ára muni bætast í hóp þeirra sem svelta í heiminum.

Miðað er við að vannæringin sé slík að vöðvar og líkamsfita barnanna rýrnar. Rannsóknir sýna fram á sterk tengsl við alvarlega og viðvarandi sjúkdóma síðar á lífsleiðinni. 

Barn sem þjáist af vannæringu - þessi mynd er tekin …
Barn sem þjáist af vannæringu - þessi mynd er tekin 6. júlí 2020 í Jemen. AFP

UNICEF gaf út skýrslu í lok júní um stöðu mála í Jemen en þar kemur fram að fyrir árslok 2020 megi gera ráð fyrir að alvarlega vannærð börn í hinu stríðshrjáða landi verði orðin 2,4 milljónir talsins.

Samkvæmt skýrslunni, sem ber yfirskriftina „Yemen Five Years On: Children, Conflict and COVID-19“, kemur samdráttur í framlögum til neyðaraðstoðar vegna COVID-19 verulega illa niður á Jemenum enda reiða 80% íbúa sig á mannúðaraðstoð til að komast af.

Varað er við því að verulega laskað heilbrigðiskerfi Jemena og veikburða innviðir séu á engan hátt í stakk búin til að eiga við kórónuveirufaraldurinn og ljóst að skelfilegar aðstæður barna í landinu muni versna umtalsvert. Skýrslan sýnir að:

  • 30 þúsund fleiri börn munu fá alvarlega bráðavannæringu á næstu sex mánuðum og heildarfjöldi vannærðra barna undir fimm ára aldri mun ná 2,4 milljónum. Það jafngildir helmingi allra barna undir fimm ára í landinu og myndi þýða aukningu um 20 prósent.
  • 6.600 fleiri börn undir fimm ára aldri gætu látið lífið af orsökum sem auðvelt er að koma í veg fyrir á þessu ári. Aukning um 28 prósent.  
  • Heilbrigðiskerfið er að hruni komið eftir fimm ára borgarastyrjöld. Aðeins helmingur heilbrigðisstofnana er starfhæfur. Mikill skortur á lyfjum, búnaði og starfsfólki.
  • Fólk hefur ekki aðgang að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu sem stóreykur dreifingu COVID-19. Í skýrslunni segir að tæplega 9,6 milljónir barna skorti fullnægjandi aðgang að hreinu vatni, hreinlætisvörum og hreinlætisaðstöðu.
  • Vegna skólalokana eru 7,8 milljónir barna ekki að fá menntun.
  • Mikil fjarvera frá skóla og síversnandi efnahagur þjóðarinnar gerir börn berskjölduð gagnvart því að vera tekin í herinn, látin vinna þrælkunarvinnu eða þvinguð í hjónaband. Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest tilfelli um 3.467 börn, allt niður í tíu ára gömul, sem notuð hafa verið í hernaði stríðandi fylkinga í landinu síðustu fimm árin.

„Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á umfang þessarar neyðar nú þegar börn, sem þegar voru að alast upp í verstu mannúðarkrísu veraldar, þurfa nú að takast á við COVID-19 og afleiðingar þess faraldurs,“ segir Sara Beysolow Nyanti, fulltrúi UNICEF í Jemen.

„Ef við fáum ekki fjármagn til að hjálpa þegar í stað munu milljónir barna svelta og þjást af vannæringu og mörg munu deyja. Alþjóðasamfélagið má ekki senda þau skilaboð að líf barna, sem lifa við stríð, sjúkdóma og fátækt, skipti ekki máli.

Sjá nánar hér

mbl.is