Draga sjálfstæðisyfirlýsingu til baka

AFP

Aðskilnaðarsinnar í Jemen hafa afturkallað sjálfstæðisyfirlýsingu sína frá í apríl og hafa kallað eftir því að Ryadh-samkomulaginu verði komið á að nýju til að tryggja öryggi og stöðugleika á svæðinu.

Umbreytingaráð suðursins lýsti yfir sjálfstæði suðurhluta Jemens í apríl síðastliðnum og sakaði stjórnvöld um að sinna ekki skyldum sínum og samsæri gegn málstað umbreytingaráðsins með þeim afleiðingum að stríðið hafi harðnað.

Ákvörðun umbreytingaráðsins á jafnframt að tryggja samstöðu gegn Hútí-fylkingunni og öðrum hryðjuverkahópum, en þrýstingur frá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum er sagður hafa ráðið ákvörðun umbreytingaráðsins.

Ryadh-samkomulagið inniheldur 29 skilmála milli ríkisstjórnar Jemens og umbreytingaráðsins sem eiga að festa mikilvæga þætti í stjórnun suðurhluta landsins í sessi.

Borgarastyrjöld hefur geisað í Jemen frá árinu 2015 þar sem Hútí-fylkingin og aðrir hópar sem studdu Ali Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta landsins, og stuðningshópar núverandi forseta, Abdrabbuh Mansur Hadi, takast á. Borgin Aden er höfuðvígi þeirra. 

mbl.is