Sænskt efnahagslíf staðið sig best

Landsframleiðsla í Svíþjóð jókst lítillega á fyrsta ársfjórðungi 2020 (jan-mars) …
Landsframleiðsla í Svíþjóð jókst lítillega á fyrsta ársfjórðungi 2020 (jan-mars) samanborið við sama tímabil í fyrra. Það hefur þó lítið að segja um framtíðina að sögn sænsks hagfræðings. AFP

Sænskt efnahagslíf hefur komið skást undan kórónuveirufaraldrinum af öllum ríkjum Evrópu. Þetta er niðurstaða úttektar breska greiningarfyrirtækisins Capital Economics sem birt var í síðustu viku.

Þar er því spáð að samdráttur landsframleiðslu á Norðurlöndum vegna heimsfaraldursins verði með því minnsta sem gerist í heiminum eða um 3% í Danmörku og Noregi og jafnvel minni í Svíþjóð. Ekki er að sjá að Ísland sé sérstaklega tekið fyrir í greiningu fyrirtækisins.

Fram kemur í skýrslunni að sænskt efnahagslíf hafi síður en svo verið ónæmt fyrir veirunni. Neytendur hafi margir haldið að sér höndum og dregið úr ónauðsynlegum útgjöldum, þó svo að fyrirtækjum og veitingastöðum hafi ekki verið lokað. „Að því sögðu er staðreyndin að Svíþjóð var eina stóra hagkerfið sem óx á fyrsta ársfjórðungi til þess fallin að milda höggið,“ segir í skýrslunni en þar er vísað til þess að landsframleiðsla í Svíþjóð var meiri fyrstu þrjá mánuði þessa árs en árið á undan. Ein þeirra mögulegu skýringa sem velt er upp er að skólum var haldið opnum í Svíþjóð í vor, sem hafði í för með sér að foreldrar gátu sótt vinnu eins og venjulega. 

Spáin of jákvæð

Sænska dagblaðið leitar skýringa alþjóðahagfræðingsins Lars Calmfors á tíðindunum, en hann er einhverjum Íslendingum kunnugur sem fyrrverandi ritstjóri norræna fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review.

Calmfors segir það ekki skipta máli upp á framtíðarþróunina þótt landsframleiðslan hafi aukist á fyrsta ársfjórðungi þar sem veiran breiddist seinna út í Svíþjóð en mörgum öðrum Evrópulöndum. „Það verður áhugaverðara að skoða annan ársfjórðung og hvernig staðan verður yfir allt árið.

Þar eru spárnar fyrir Svíþjóð eilítið betri en hjá mörgum öðrum ESB-ríkjum en þó ekki miklu betri,“ segir Calmfors. Hann telur spár Capital Economics of jákvæðar, en þar er gert ráð fyrir 1,5% samdrætti í landsframleiðslu í Svíþjóð á árinu, á sama tíma og spár sænskra stjórnvalda gera ráð fyrir 5,4% samdrætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert