Tíu látin eftir sprittdrykkju

Indverskur sölumaður spreyjar sótthreinsi á vörur sínar.
Indverskur sölumaður spreyjar sótthreinsi á vörur sínar. AFP

Að minnsta kosti tíu létust eftir að hafa drukkið áfengt sótthreinsispritt í þorpinu Kurichedu í indverska héraðinu Andhra Pradesh. Áfengisverslanir í þorpinu eru lokaðar en lokunin er tilkomin vegna útbreiðslu kórónuveiru. Útgöngubann er í þorpinu.

Siddharth Kaushal, yfirlögregluþjónn héraðsins, sagði að fólkið sem lést hefði blandað sprittinu við vatn og gosdrykki. Fólkið byrjaði að drekka sprittdrykkina um tíu dögum áður en það lést. 

„Við erum að kanna hvort önnur eiturefni hafi verið í sprittinu,“ sagði Kaushal við fréttamenn en sýnishorn af sprittinu hefur verið sent til efnagreiningar.

Fjöldi smitaðra nífaldast

„Sumt fólk sem er mjög háð áfengi hefur innbyrt spritt til þess að komast í vímu undanfarið,“ sagði Kaushal í samtali við Reuters. 

„Áfengi er ekki fáanlegt vegna útgöngubanns en það er auðvelt fyrir fólk að útvega sér handspritt.“

Kórónuveirufaraldurinn er á uppleið í Andhra Pradesh en fjöldi smitaðra hefur nífaldast á síðasta mánuði. 

mbl.is