Úthrópaðir á samfélagsmiðlum

Ferðamenn sleikja sólina á Playa de Figueretas á spænsku Miðjarðarhafseyjunni …
Ferðamenn sleikja sólina á Playa de Figueretas á spænsku Miðjarðarhafseyjunni Ibiza í gær. Spánn er nú rauðmerktur á ný á kórónukorti norskra stjórnvalda vegna fjölgunar smita þar og liggja Norðmenn í sumarfríi þar og víðar nú undir þungu ámæli landa sinna fyrir að hætta á að færa óboðinn vágest heim, kórónuveiruna. AFP

Norðmenn á ferðalögum erlendis sæta nú mikilli orrahríð á samfélagsmiðlasíðum landa sinna hvar þeim er brigslað um sjálfhverfni og ýmislegt mun ófegurra og beðnir að skammast sín fyrir að stefna þeim sem heima sitja í hættu með því að færa hugsanlega ósýnilegan og óvelkominn varning með sér heim í miðjum heimsfaraldri kórónuveiru.

Fréttir berast nú af fjölda innfluttra kórónuveirusmita í Noregi eftir að stjórnvöld veittu tilslakanir í ferðaráðum sínum um miðjan mánuðinn og var í þessari viku greint frá því að 56 af 114 nýjum kórónuveirusmitum með þekktan uppruna kæmu frá svæðum utan Noregs og í morgun sagði norska ríkisútvarpið NRK frá því að sex af átta smitum, sem greinst hefðu í Bergen í þessari viku, væru aðflutt.

„Tilfinningin sem fylgdi kórónuveirunni var ótti,“ segir heimspekingurinn Einar Øverenget í samtali við NRK. „Ótti getur vakið með okkur varkárni en einnig reiði og reiði getur ýtt okkur út í athafnir sem við ellegar hefðum látið kyrrar liggja.“

Øverenget segir óttann öflugan drifkraft manneskjunnar, einn þann öflugasta. „Í deilum á lýðnetinu hverfur rökfestan í skugga siðapredikunar um hvað sé rétt og hvað rangt. Þar er gert út á grunnhyggnina og skömmina,“ segir heimspekingurinn enn fremur.

„Skil að fólk geti reiðst“

Bent Høie heilbrigðisráðherra, sem NRK ræddi málið einnig við, reiddi nokkru lægra til höggs en viðmælandinn á undan en sagðist skilja gremjuna, margir hefðu fórnað miklu til að halda veirunni í skefjum og faraldurinn hefði hrifsað háan toll.

„Fólk hefur misst ástvini, sumir hafa ekki fengið að heimsækja ástvini á umönnunarheimili, aðrir hafa misst vinnuna. Ég skil að fólk geti reiðst þegar því sýnist sem aðrir láti sér þetta í léttu rúmi liggja,“ segir ráðherra og hvetur Norðmenn í framhaldinu til að reyna að forðast reiði hver í annars garð eins og ástandið er. „Eins er hægt að láta skoðun sína í ljós án þess að undirtónninn sé reiði og láta níðið í garð náungans liggja hjá, því það hjálpar ekki neitt,“ segir Høie.

Þvert á móti segir heilbrigðisráðherrann orðræðu sem veki skömm og samviskubit hjá ferðafólki fæla það frá því að gera það eina rétta, fara í sóttkví og veiruskimun finni það til einkenna.

„Frískömm“ títtnefnd í miðlum

Um það fjallaði einmitt önnur frétt NRK í morgunsárið, þar sem greint var frá þeim uggi Anette Corydon, yfirlæknis heilsugæslunnar í Bergen, að Norðmenn sem þjáist af frískömm þori ekki í veiruskimun af ótta við dóm samfélagsins. Nota þeir norsku hér orðið „ferieskam“ sem sést nú og heyrist æ oftar í þarlendum fjöl- og samfélagsmiðlum.

„Við megum ekki dæma heldur skulum við sýna hvert öðru umburðarlyndi,“ segir læknirinn í tilraun til að bera klæði á vopnin og fær meðbyr frá kollega sínum Siri Helene Hauge, yfirlækni Lýðheilsustofnunar Noregs. „Við sjáum það skýrt að viðsjár eru vaktar og mikil tilfinningasemi fólks á báða bóga. Þrátt fyrir að manni mislíki eitthvað sem einhver annar hefur gert er mikilvægt að fólk komi fram af virðingu. Eins er mjög mikilvægt að fólk sem verið hefur á ferð erlendis láti prófa sig ef það veikist,“ segir Hauge.

Samkvæmt tölfræði norska flugvallarekandans Avinor, sem er sambærilegt fyrirtæki og Isavia, tífaldaðist umferðin um norska flugvelli í síðustu viku miðað við fyrstu viku júnímánaðar þrátt fyrir að hún sé nú 85 prósentum minni en á sama tíma í fyrra. Staða mála í Evrópu hefur tekið örum breytingum síðustu daga en norsk stjórnvöld færðu Spán og Andorra yfir á rautt fyrir viku og Belgía fylgir í kjölfarið á miðnætti í kvöld. Rauð merking táknar að Norðmönnum sé nauðugur einn kostur að fara í tíu daga sóttkví við heimkomu frá viðkomandi landi.

NRK (snupraðir á samfélagsmiðlum)

NRKII (veigra sér við veiruprófum)

NRKIII (tekin á beinið fyrir Spánarför)

TV2

Nettavisen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert