Stórtækir búðaþjófar í Bergen

Hluti meints þýfis sem alls var pakkað í 47 sorpsekki …
Hluti meints þýfis sem alls var pakkað í 47 sorpsekki og fannst við húsleit í tveimur íbúðum í Bergen. Þrennt var handtekið vegna málsins. Ljósmynd/Lögreglan í Bergen

Öryggisverðir við Sartor-verslunarmiðstöðina í Bergen í Noregi kölluðu lögreglu á vettvang eftir að þeir höfðu hendur í hári pars á fertugs- og fimmtugsaldri á þriðjudagskvöld sem reyndist vera með varning á sér sem það gat hvorki gert grein né sýnt kvittanir fyrir. Lögregla handtók parið á staðnum enda meint þýfi um 15.000 króna virði, rúmlega 220.000 íslenskra króna.

„Eins grunaði okkur, vegna skráningarnúmers á bifreið við verslunarmiðstöðina, að þriðji aðili tengdist málinu,“ segir Sven Erik Midthjell lögreglustjóri í samtali við Bergens Tidende. Var húsleit framkvæmd í kjölfar handtökunnar í tveimur íbúðum í Bergen og var þriðji maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, handtekinn í annarri þeirra.

Fann lögregla samtals 47 sorpsekki með meintu þýfi í íbúðunum og kenndi ýmissa grasa, fatnaðar, snyrtivara og margs konar merkjavöru sem augljóslega var glæný og ónotuð, flest með verðmerkingum á.

Minnst hálfrar annarrar milljónar virði

Telur lögregla ljóst að fólkið hafi farið skipulega um Sartor-miðstöðina og fjölda annarra verslana í og umhverfis Bergen og stundað þar iðju sína en Midthjell kýs vegna rannsóknarhagsmuna að tjá sig ekki um þær skýringar sem fólkið hefur hingað til gefið við yfirheyrslur.

„Andvirðið [þýfisins] er að minnsta kosti 100.000 krónur [1,5 milljónir ISK] og sennilega meira en það,“ segir lögreglustjórinn við dagblaðið VG og bætir því við að stór hluti þýfisins komi augljóslega úr verslunum sem tilheyri keðjum svo ekki verði áhlaupaverk að koma öllu til skila aftur á rétta staði.

„Þetta virðist allt vera nýtt, merkt með verðmiðum og strikamerkjum. Einhver vinna verður að skrá þetta allt,“ segir hann að auki.

Bergens Tidende

VG

ABC Nyheter

mbl.is