Þögðu um smit við 209 farþega

Eitt skipa Hurtigruten á siglingu. Alls hafa 36 úr áhöfn …
Eitt skipa Hurtigruten á siglingu. Alls hafa 36 úr áhöfn MS Roald Amundsen greinst með kórónuveirusmit og keppast norsk heilbrigðisyfirvöld og útgerðin nú við að ná sambandi við tæplega 400 farþega úr tveimur siglingum sem þurfa að fara strax í sóttkví. Þeir eru búsettir í 69 sveitarfélögum, 60 manns sitja í einangrun í Tromsø. Ljósmynd/Hurtigruten

Þrjátíu og sex manns úr áhöfn skips norsku farþegaskipaútgerðarinnar Hurtigruten, MS Roald Amundsen, hafa greinst með kórónuveirusmit sem upp kom í siglingum skipsins 17. – 24. og 25. – 31. júlí og sitja nú 60 manns, áhöfn og farþegar, í sóttkví í Tromsø þar sem skipið kom til hafnar í gær.

Forsaga málsins er sú að farþegi úr fyrri siglingunni greindist með smit á miðvikudaginn. Voru ferðir hans síðustu daga á undan þegar raktar og hafði yfirlæknir Vesterålen, þar sem sjúklingurinn er til heimilis, strax samband við Hurtigruten og bað um að öllum farþegum skipsins úr fyrri siglingunni yrði tafarlaust gert viðvart. Lýðheilsustofnun Noregs (FHI) hafði einnig samband og krafðist þess sama.

Enginn þeirra 209 farþega sem um borð voru í þeirri siglingu fékk hins vegar að vita neitt fyrr en heilbrigðisstarfsfólk tók að hringja í þá í gær og eins farþega úr seinni siglingunni en alls er um tæplega 400 farþega að ræða, búsetta í 69 norskum sveitarfélögum, sem nú þarf að koma í sóttkví og veiruprófa. Ekki hefur náðst í alla farþegana en Hurtigruten hefur nú sett upp sérstakt neyðarsímanúmer sem þeir geta hringt í.

Nýkominn frá Filippseyjum

Á blaðamannafundi, sem haldinn var í Tromsø klukkan 17:30 í dag að norskum tíma, þar sem Gunnar Wilhelmsen bæjarstjóri fór yfir málið ásamt Kathrine Kristoffersen yfirlækni og Daniel Skjeldam, forstjóra Hurtigruten, var höfuðkenning stjórnar Hurtigruten sett fram.

Af þeim 36 úr áhöfninni, sem reynst hafa smitaðir, eru 33 frá Filippseyjum. Einn þeirra var nýkominn þaðan þegar fyrri siglingin hófst og er talið að hann hafi smitað hina 35 og það smit hugsanlega borist í farþegann sem fyrstur greindist smitaður.

Það var Line Vold, deildarstjóri hjá FHI, sem bað Hurtigruten að senda farþegum úr fyrri siglingunni tafarlaus boð um að fara í sóttkví til að tryggja öryggi allra þeirra sem verið hefðu í návígi við smitaða farþegann og enn fremur allra í þeirra kreðsum. Þarna var enn ekki orðið ljóst að nánast öll filippseyska áhöfnin var smituð.

Töldu farþegann ekki hafa smitast um borð

Rune Thomas Ege, upplýsingafulltrúi Hurtigruten, sagði í samtali við dagblaðið VG í gærkvöldi að útgerðin hefði í fyrstu talið að farþeginn hefði ekki smitast um borð, heldur eftir að siglingunni lauk. „Eftir að við fengum þessar nýju upplýsingar í dag [um smit áhafnarinnar] ákváðum við strax að hafa samband við alla farþega síðustu tveggja siglinga,“ sagði Ege.

Hann sagði útgerðina nú vinna með FHI að því að ná sambandi við alla, tæplega 400 manns, auk þess sem allt yrði gert fyrir áhöfnina smituðu sem mögulegt væri.

„Við höfum haldið uppi siglingum frá því í janúar án nokkurra grunsemda um Covid-19 [um borð í skipunum],“ sagði Daniel Skjeldam, forstjóri Hurtigruten, á blaðamannafundinum í Tromsø. „Við minnsta grun um smit í siglingu hefðum við ekki hleypt farþegunum í land.“ Hann segir áhafnir, sem koma frá löndum utan Evrópu, veiruprófaðar tvisvar sinnum, áður en þær fara frá heimalandi sínu, og sitja í einangrun milli prófanna.

Ekki er ljóst hvað þar fór úrskeiðis eða hvort smitið hafi komið til á ferðalaginu frá Filippseyjum til Noregs en enn fremur er ekki ljóst hvort smitið um borð í MS Roald Amundsen sé frá þessum tiltekna Filippseyingi komið, það er aðeins kenning útgerðarinnar.

Tarjei Kramviken, annar upplýsingafulltrúi Hurtigruten, segir við norska ríkisútvarpið NRK að mat þriggja lækna á ástandi þeirra fyrstu fjögurra sem veiktust hafi verið að ekki væri um kórónuveirusýkingu að ræða.

Tala smitaðra í áhöfninni hækkaði tvisvar sinnum á meðan þessi frétt var skrifuð.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

mbl.is