133 handteknir á sóttvarnamótmælum

133 voru handteknir í Berlín í gær á fjölmennum mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum þýskra stjórnvalda. Lögreglan í Berlín greinir frá þessu. Allt að 20.000 manns voru saman komnir í þýsku höfuðborginni en að mótmælunum stóð fjölbreyttur hópur samtaka yst á hægri og vinstri væng þýskra stjórnmála og samsæriskenningasmiðir.

Mótmælendur virtu sóttvarnareglur að vettugi, eins og gefur að skilja, stóðu þétt saman og voru flestir grímulausir. Um 1.100 lögreglumenn voru kallaðir til til að reyna að hafa hemil á mannskapnum, en þeim handteknu er ýmist gefið að sök að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, spillt friði eða borið ólögleg tákn á borð við áróðurstákn nasista.

Um 45 lögreglumenn hlutu áverka í mótmælunum og voru þrír þeirra fluttir á sjúkrahús, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þá verður ákæra gefin út á hendur skipuleggjendum mótmælanna fyrir að virða ekki sóttvarnareglur.

Stjórnmálamenn í Þýskalandi hafa margir hverjir fordæmt mótmælin og sagt mótmælendur stefna sjálfum sér og öðrum í hættu með uppátækinu. „Samskiptafjarlægð, reglur um hreinlæti og grímur eru hér til að vernda okkur öll, svo við getum komið fram af virðingu hvert við annað,“ segir Jens Spahn heilbrigðisráðherra. „Já, mótmæli eiga einnig að vera möguleg á veirutímum, en ekki með þessum hætti.“ 

Allt að 20.000 mótmælendur komu saman í miðborg Berlínar í …
Allt að 20.000 mótmælendur komu saman í miðborg Berlínar í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert