62 smit í sláturhúsi í Ringsted

Sláturhús Danish Crown.
Sláturhús Danish Crown. Af vef Danish Crown
Átján ný smit voru staðfest meðal starfsmanna í sláturhúsi Danish Crown í Ringsted í gær en alls eru smitin orðin 62 í sláturhúsinu. Samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins var fyrsta smitið í sláturhúsinu staðfest fyrir viku en alls starfa þar 900 manns. 
Upplýsingafulltrúi Danish Crown segir að þetta sýni svart á hvítu hversu hratt kórónuveiran getur smitast á milli fólks. 
Síðasta sunnudag lét starfsmaður sláturhússins vita að hann hafi greinst smitaður af COVID-19. Hann hafði verið lagður inn á sjúkrahús vegna gruns um blóðtappa. Á sjúkrahúsinu var hann prófaður fyrir kórónuveirunni líkt og gert er við alla þá sem lagðir eru inn á sjúkrahúsið og þannig kom í ljós að hann væri smitaður. Á mánudeginum var síðan ljóst að tveir starfsmenn höfðu smitast og síðan hefur nýjum smitum fjölgað hratt. 

Búið er að taka sýni úr 600 af 900 starfsmönnum sláturhússins og verða þeir sem eftir á að rannsaka boðaðir í sýnatöku á morgun. 
Kort/Google
mbl.is