Hættulegur vígvöllur mannréttinda

AFP

Samfélagsmiðlar eru nýr og hættulegur vígvöllur mannréttinda í Egyptalandi eftir að ungar konur voru dæmdir í fangelsi fyrir að brjóta almennar siðgæðisreglur með birtingu myndskeiða á TikTok.

Ungu konurnar sem eru þekktir femínistar og áhrifavaldar á samfélagsmiðlum í heimalandinu, þær Haneen Hossam, Mowada al-Adham og þrjár aðrar, voru dæmdar í tveggja ára fangelsi hver á mánudag og á miðvikudag var Manar Samy dæmd í þriggja ára fangelsi vegna myndskeiðs á TikTok þar sem hún sést dansa og þykjast syngja (hreyfa varirnar) þekkt lög.

Haneen Hossam og Mowada al-Adham.
Haneen Hossam og Mowada al-Adham. AFP

Margir fagna dómunum yfir ungu konunum í Egyptalandi en þar er litið á myndskeið sem þessi sem siðspillingu. 

Afar harðar reglur gilda um netnotkun í Egyptalandi og hvaða efni má setja þar inn. Árið 2018 voru sett ný lög í landinu sem heimila yfirvöldum að loka vefsíðum sem þau telja ógna þjóðaröryggi og til að fylgjast með persónulegum síðum fólks á samfélagsmiðlum ef fylgjendur viðkomandi eru fimm þúsund talsins eða fleiri. 

Ungu konurnar sex eru með milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum en Hossam var handtekin eftir að hún birti myndskeið þar sem hún segir að stúlkur geti unnið sér inn pening vinni þær með henni. Er hún sökuð um að hvetja til vændis með þessum ummælum. Adham hafði birt háðsdeilumyndskeið á TikTok og Instagram. 

Haneen Hossam.
Haneen Hossam. AFP

Á sama tíma hafa ungar konur stigið fram og lýst á samfélagsmiðlum kynbundnu ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Meðal annars birt myndir sem sýna líkama þeirra illa leikna eftir heimilisofbeldi. 

Menna Abdel-Aziz, 17 ára, birti á Instagram myndskeið þar sem hún greindi frá hópnauðgun sem hún varð fyrir. Yfirvöld brugðust strax við og handtóku ofbeldismennina sex en hana einnig. Þau voru öll ákærð fyrir að hampa ólifnaði. „Hún framdi glæpi og viðurkennir hluta þeirra,“ sagði ríkissaksóknari í yfirlýsingu. „Hún á refsingu skilda.“

Frá því mál Abdel-Aziz kom upp hefur #MeToo-hreyfingunni vaxið fiskur um hrygg að nýju en baráttan er ekki auðveld að sögn mannréttindasamtaka. Þau segja að ríkisstjórn Abdel Fattah al-Sisi forseta hafi frá því hann tók við völdum árið 2014 dregið mjög úr tjáningarfrelsi landsmanna. 

Fræðimenn, bloggarar, blaðamenn, lögfræðingar og aðgerðasinnar eru meðal þeirra sem hafa verið fangelsaðir undanfarin ár fyrir skoðanir sínar.

Mowada al-Adham.
Mowada al-Adham. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert