Trump kallar eftir dauðarefsingu að nýju

Mynd af Tsarnaev í haldi alríkislögreglunnar árið 2013.
Mynd af Tsarnaev í haldi alríkislögreglunnar árið 2013. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti kallar eftir því að maðurinn sem fundinn var sekur um sprengjuárásina í maraþoninu í Boston árið 2013, Dzhokhar Tsarnaev, verði dæmdur til dauða að nýju.

Tsarnaev var upphaflega dæmdur til dauða fyrir voðaverkið, sem varð þremur að bana og særði 264 manns, en áfrýjunardómstóll hefur dregið dauðarefsingu hans til baka.

„Sjaldan hefur nokkur átt skilið dauðarefsingu meira en Boston-sprengjumaðurinn, Dzhokhar Tsarnaev,“ tísti forsetinn í kvöld.

Lést fjórum dögum eftir árásina

Tsarnaev, sem í dag er 27 ára, hefur játað að hafa staðið að árásinni ásamt eldri bróður sínum Tamerian. Sá lést fjórum dögum eftir árásina, í skotbardaga við lögreglu.

Áfrýjunardómstóllinn, sem kvað upp niðurstöðu sína á föstudag, vísaði sérstaklega til álitaefna sem varða hlutleysi við val á kviðdómendum. Beindi hann því til héraðsdómstóls að boða til annarra réttarhalda þar sem ákveðin verði önnur refsing.

Hann mun þó alltaf verja ævinni í fangelsi, sama hvað verður, sögðu áfrýjunardómararnir þrír.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert