Yfir 60 þúsund smit fimmta daginn í röð

AFP

Alls voru staðfest 61.262 ný smit í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn og er þetta fimmti dagurinn í röð þar sem ný smit eru yfir 60 þúsund talsins samkvæmt talningu Johns Hopkins-háskólans. Dauðsföllin eru yfir þúsund talsins síðasta sólarhringinn en yfir 154.300 manns eru látnir í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirunnar. Yfir 4,6 milljónir smita hafa verið staðfest í Bandaríkjunum. 

AFP

Á sama tíma undirbúa íbúar Flórída sig fyrir komu hitabeltisstormsins Isaias en von er á að hann verði orðinn að fellibyl áður en hann kemur að landi. Aðeins í Kaliforníu eru COVID-19 smitin fleiri en í Flórída en íbúar Kaliforníu eru tæplega tvöfalt fleiri en í Flórída. Í gær var tilkynnt um 179 ný dauðsföll í Flórída og alls eru dauðsföllin þar orðin 6.843 talsins.

AFP
mbl.is