Dæmd í 3,5 ára fangelsi fyrir manndráp

Bresk kona hefur verið dæmd í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa drepið eiginmann sinn á malasísku eyjunni Langkawi.

Samantha Jones stakk John William Jones til bana í húsi þeirra árið 2018. Að sögn verjanda hennar hafði hún búið við heimilisofbeldi af hálfu eiginmannsins árum saman. 

Jones hafði játað manndráp af gáleysi og var auk fangelsisvistar dæmd til að greiða 310 þúsund króna sekt. Hún hafði verið ákærð fyrir morð og átti yfir höfði sér dauðarefsingu en saksóknari féllst á að breyta ákærunni og milda. 

Við réttarhöldin, sem fóru fram í borginni Alor Setar, játaði Jones sök og grét þegar saksóknari lagði fram morðvopnið og myndir af vettvangi glæpsins. Lögmaður Jones, Sangeet Kaur Deo, sagði að hún hefði búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu eiginmannsins árum saman en hann var bæði áfengissjúklingur og mikill skapofsamaður. 

Samantha Jones við réttarhöldin í dag.
Samantha Jones við réttarhöldin í dag. AFP

Deilur þeirra hinn 18. október 2018 hófust með því að hann sparkaði í hana þar sem hún lá í rúminu árla morguns. Hún flúði inn í eldhús en hann elti hana þangað og í átökum þar stakk hún hann ítrekað með hnífi. Blað hnífsins hæfði hann í lifrina og þegar sjúkrabíllinn kom á vettvang 45 mínútum síðar var hann látinn. Hann var undir miklum áhrifum áfengis samkvæmt réttarmeinarannsókn. 

Þau höfðu verið gift frá árinu 2001 og búið á malasísku eyjunni frá 2005.

Samantha Jones á leið í réttarsalinn í morgun.
Samantha Jones á leið í réttarsalinn í morgun. AFP
mbl.is