Hvað fleira gæti Trump bannað?

TikTok-lógið á símaskjá með bandaríska fánann í bakgrunninum.
TikTok-lógið á símaskjá með bandaríska fánann í bakgrunninum. AFP

Tími TikTok í Bandaríkjunum er hugsanlega að líða undir lok, enda hafa Donald Trump Bandaríkjaforseti og fleiri háttsettir embættismenn talað um að banna þennan vinsæla samfélagsmiðil í landinu.

WeChat gæti fengið rauða spjaldið

Hugsanlega munu Bandaríkin beina sjónum að fleiri smáforritum og hugbúnaði í eigu Kínverja. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt því fram í gær að sum kínversk tæknifyrirtæki væru að „dæla upplýsingum beint til kínverska kommúnistaflokksins“.

WeChat, sem er í eigu Tencent, gæti fengið rauða spjaldið hjá Trump. Smáforritið var það eina fyrir utan TikTok sem Pompeo nefndi til sögunnar í gær.

WeChat hefur verið lýst sem samfélagsneti en í raun og veru er það mun meira en það, að því er kemur fram í umfjöllun BBC um málið. Þar á meðal er hægt að borga með því og sjá fréttir, auk þess að senda skilaboð.

Einhverjir líta á appið sem lykilverkfæri í innra eftirlitskerfi Kína. Notendur heima fyrir sem hafa verið sakaðir um að dreifa orðrómi sem þykir ekki við hæfi hafa verið skikkaðir í gegnum appið til að skrá sig með andlitsskanna og raddupptöku.

Forritið er einnig sagt vera notað af kínverska kommúnistaflokknum til að dreifa áróðri.

Mike Pompe setur á sig grímu.
Mike Pompe setur á sig grímu. AFP

59 forrit bönnuð á Indlandi 

Indverjar gætu einnig veitt innsýn í hvaða fleiri kínversk öpp gætu fengið reisupassann í Bandaríkjunum.

Nýlega bannaði suðurasíska þjóðin 59 smáforrit sem tengjast Kínverjum. Ástæðan sem var gefin upp var að þau ógnuðu „fullveldi og öryggi“ Indlands, en þjóðirnar tvær hafa átt í langvinnum landamæradeilum.

TikTak og WeChat voru á bannlistanum ásamt leitarvélunum Baidu Maps og Baidu Translate, kínverskum keppinautum Google. Á meðal annarra á listanum voru bloggþjónustan Weibo sem þykir svipa til Twitter, tölvuleikirnir Clash of Kings og Mobile Legends Bang Bang, CamScanner og póst- og skjalaforritið QQMail.

Einn sérfræðingur telur að ein af ástæðunum fyrir banninu á Indlandi gæti verið að stjórnvöld vilji aðstoða forritara heima fyrir og styrkja þeirra stoðir. Þau hafi í raun minni áhyggjur af öryggismálum tengdum kínversku öppunum.

Eftirlíking af íslensku landsliðstreyjunni var seld á AliExpress.
Eftirlíking af íslensku landsliðstreyjunni var seld á AliExpress.

AliExpress líka bannað? 

Fregnir á Indlandi herma að stjórnvöld séu að íhuga að banna 275 smáforrit til viðbótar, sum þekkt, á borð við AliExpress frá Kína, tölvuleiki frá NetEase sem gefur út fjölda Marvel-titla og svo Supercell frá Finnlandi sem gefur út tölvuleikinn Clash of Clans, á þeim grundvelli að Tencent eigi stóran hlut í fyrirtækinu.

Pompeo hefur einnig gefið í skyn að ástæða sé til að hafa áhyggjur af hugbúnaði sem býr til andlitsmynstur. Þrátt fyrir að hann hafi ekki nefnt nein nöfn búa mörg kínversk fyrirtæki til slíkan hugbúnað. Þar má nefna samfélagsnetið Kwai og fegurðar-forritið YouCam Makeup. Þau eru bæði bönnuð á Indlandi.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands á Zoom-fundi.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands á Zoom-fundi. AFP

Gagnrýni í garð Zoom

Áhyggjur hafa einnig verið uppi sums staðar um fjarskiptaforritið Zoom sem var stofnað af Eric Yuan sem fæddist í Kína. Forritið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa „fyrir mistök“ flutt sumar hringingar í gegnum netþjóna sem eru staðsettir í Kína. Einnig hefur það verið gagnrýnt fyrir að hafa lokað zoom-reikningum með viðburðum þar sem kínversk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina