Boðið að sjá pýramídana vegna tísts um geimverur

Elon Musk, stofnandi SpaceX og Tesla.
Elon Musk, stofnandi SpaceX og Tesla. AFP

Egyptar hafa boðið Elon Musk, stofnanda Tesla og SpaceX, að heimsækja pýramídana frægu í landinu eftir að hann tísti á Twitter að geimverur hefðu reist þá.

„Það er greinilegt að geimverur reistu pýramídana,“ tísti Musk, sem virðist sammála samsæriskenningum þess efnis. Færsla hans á Twitter vakti eðlilega mikil viðbrögð.

Sumir Egyptar svöruðu færslunni þannig að milljarðamæringurinn ætti að lesa sér til um staðreyndir málsins áður en hann birti slíka fullyrðingu.

Rania al-Mashat, ráðherra alþjóðasamstarfs í Egyptalandi, sem er dugleg að nota samfélagsmiðla, sá markaðstækifæri í ummælum Musk í miðjum veirufaraldri og bauð honum til landsins.

„Ég fylgist með starfi þínu af mikilli aðdáun,“ skrifaði Mashat, sem er fyrrverandi ferðamálaráðherra landsins. „Mig langar að bjóða þér og Space X að skoða það sem skrifað hefur verið um smíði pýramídanna og einnig skoða grafhýsi sumra þeirra sem reistu þá.

„Herra Musk, við bíðum eftir heimsókn þinni,“ bætti hún við.

Musk svaraði með því að setja á Twitter tengil úr grein BBC um sögu pýramídanna og sagði umfjöllunina um smíði þeirra skynsamlega.

Pýramídarnir í Giza voru opnaðir fyrir almenningi í síðasta mánuði eftir að þeir höfðu verið lokaðir í þrjá mánuði vegna kórónuveirunnar.mbl.is